,,Hann gat bara þaðan í frá, fyrir hann þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherrann, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin. Umsvifalaust er ég í járnum og farið með mig upp á geðdeild“
Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi ráðherra og sendiherra, var í viðtali á RÚV í morgun og segir þar að faðir sinn hafa misnotað stöðu sína sem sendiherra og nýtt sér bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington til þess að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild.
Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um frásagnir kvenna af ósæmilegri hegðun Jóns Baldvins og áreitni. Elstu sögurnar eru um 50 ára en þær nýjustu frá því í fyrra. Fjöldi kvenna hefur nú gengið í #metoo hóp á Facebook sem snýr að Jóni Baldvini, þolendum hans og aðstandendum þeirra.
,,Árinu áður hafði ég sagt skilið við hann, vegna þess að hann hafði þá upplýst mig, fullur, í svo sjokkerandi tali, um kynlíf sitt með konum í móðurætt og ég hafði sagt skilið við hann. Ég hringi í hann og segi honum til syndanna og að ég muni kæra hann.
Síðan líða einhverjir dagar og hann fær mig undir fölsku yfirskyni til þess að heimsækja afa minn sem væri veikur og að við þyrftum að fara að heimsækja hann og þar kem ég.
Ég er ekki búin að vera þarna nema í svona tíu mínútur, korter, þá er mér sagt að ég fái ekki að fara út og Jón Baldvin var hvergi sjáanlegur.
Svo er það ekki fyrr en 2013 sem ég veit hvað gerðist þegar ég les skýrslurnar, sjúkragögnin. Þá er ég sem sagt greind þarna án minnar vitundar, á þessu korteri sem ég er þarna. Með “maníu“ og alvarlegt ítrekað þunglyndi og ég sprautuð niður með forðasprautu og þar með missti ég ráð og rænu. Gat ekki hugsað skýrt, talað skýrt og var slefandi og þarna var mér haldið inni í mánuð, ólöglega.“ Þá segir hún einnig að áhrif lyfjanna hafi verið notuð gegn sér í sjúkraskýrslum.
Aldís segist hafa rætt um kynferðisbrot við föður sinn árið 1992 eftir að skólasystir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Aldís hefur lýst þeim brotum sem hún varð fyrir á æskualdri og segir að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell á fullorðinsárum hennar. Hún hefur ekki treyst sér enn til að greina ítarlega frá þeim brotum. „Mér er óbærilegt að rifja þetta upp og það er svo sárt,“ segir Aldís.
Aldís er viss um að sá fundur með föður sínum hafi orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild en það gerðist svo ítrekað á tíu ára ferli samtals fimm sinnum.
Hún fullyrðir að Jón Baldvin hafi getað sem ráðherra og síðar sendiherra sent bréf til dómsmálaráðuneytisins til þess að hún yrði nauðungarvistuð.
„Hann gat bara þaðan í frá, fyrir hann þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherrann, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin. Umsvifalaust er ég í járnum og farið með mig upp á geðdeild, ég fæ ekki viðtal og það er skrautlegt að lesa þessar yfirlýsingar geðlækna. Það er um einhverjar ímyndanir mínar og ranghugmyndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ sagði Aldís m.a. í samtali í við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun. Þá var tekið fram að Jón Baldvin kjósi ekki að tjá sig um málið að svo stöddu.
Þá hefur Aldís birt opinberlega vottorð frá geðlæknum um geðheilsu sína þar sem að kemur fram að hún kunni að eiga við áfallastreituröskun vegna kynferðisbrots / brota.