Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sendi Fiskistofu í dag erindi og tilmæli um að efla eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Ráðherra leggur það fyrir stofnunina að sérstök áhersla verði lögð á að kanna, með markvissum hætti, yfirráð tengdra aðila og að Fiskistofa upplýsi ráðherra reglulega um niðurstöður sínar.
Erindi ráðherra byggir á skýrslu starfshóps um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni og skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í desember 2018 um Eftirlit fiskistofu, en í 13. gr. laga nr. 116/2006 er fjallað um hver samanlögð aflahlutdeild í eigu einstakra aðila og tengdra aðila má nema.
Þá hefur ráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (eftirlit Fiskistofu o.fl.) en ríkisstjórnin samþykkti í gær að frumvarpið yrði sent til Alþingis. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sviði fiskveiðistjórnar sem miða að því að styrkja eftirlit Fiskistofu. Markmiðið er skilvirkara eftirlit með tilætluð varnaðaráhrif og að tryggja því betur framfylgni við lög og reglur á sviði fiskveiðistjórnar.
„Stjórnvöld verða að hafa yfirsýn yfir yfirráð tengdra aðila á aflaheimildum og markvisst eftirlit Fiskistofu er því mikilvægt. Skerpa þarf á þessu eftirliti en einnig þarf að gera breytingar á skilgreiningum á tengdum aðilum í lögum um stjórn fiskveiða, þannig að skýrt sé hvenær tveir aðilar skuli teljast tengdir. Með þessum tilmælum og þessu frumvarpi eru stigin fyrstu skrefin að því markmiði að gera nauðsynlegar umbætur á eftirliti með fiskveiðistjórnunarkerfinu. Skilvirkt opinbert eftirlit er ein forsenda þess að traust sé á nýtingu þessarar sameiginlegu auðlindar þjóðarinnar,“ segir Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.