Drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Breytingarnar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi – sérstaklega fyrir þau sem einungis fá greiðslur frá almannatryggingum eða eru með litlar aðrar tekjur en frá ríkinu.
Markmiðið er að bæta afkomu þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri, einfalda kerfið, draga úr tekjutengingum, auka hvata til atvinnuþátttöku og gera örorkulífeyriskerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustukerfa komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.
„Breytingarnar fela í sér nýja hugsun, breiðari nálgun, og mestu umbyltingu á örorkulífeyriskerfinu frá upphafi. Við umbyltinguna tökum við betur utan um fólk en áður og búum til hvata til að gera því kleift að blómstra. Markmiðið er skýrt: Að stuðla að bættum kjörum, aukinni virkni og meira öryggi og vellíðan fólks,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Í nýja kerfinu er aukin áhersla lögð á samfellda þjónustu í tengslum við starfsendurhæfingu hjá fólki sem verður fyrir alvarlegum eða langvarandi heilsubresti. Við viljum grípa fólk snemma og draga úr líkum á því að fólk hætti þátttöku á vinnumarkaði og fari á ótímabæra örorku með tilheyrandi tekjutapi til framtíðar fyrir viðkomandi. Eftir breytingarnar verður fólki með mismikla getu til atvinnuþátttöku gert kleift að reyna fyrir sér á vinnumarkaði og bæta þar með afkomu sína kjósi það svo. Á sama tíma höldum við sérstaklega utan um þau sem minnst hafa og eru með litlar líkur á atvinnuþátttöku – og tryggjum þeim bætt lífskjör.“
Helstu breytingar á kerfinu:
Meginefni frumvarpsins snýr að breytingum á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.
Samvinna þjónustukerfa og samhæfingarteymi:
Lagt er til að þau þjónustukerfi sem veita endurhæfingarþjónustu skuli eiga með sér samstarf og samvinnu um endurhæfingu einstaklinga sem þurfa þjónustu fleiri en eins kerfis eða þurfa að fara á milli kerfa. Þetta á ekki síst við um þau sem eru með fjölþættan vanda. Komið skal á samhæfingarteymum sem hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Teymin leggja til þá þjónustu sem gæti gagnast viðkomandi og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.
- Með markvissri samvinnu þjónustukerfa er stuðlað að heildstæðri nálgun og samfellu í endurhæfingu fólks þannig að það fær frekar rétta þjónustu á réttum tíma. Nauðsynleg yfirsýn fæst og einstaklingurinn er leiddur á milli þjónustukerfa.
Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur:
Lagt er til að komið verði á fót sjúkra- og endurhæfingargreiðslum sem styrkja verulega stöðu þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests. Þær koma í stað endurhæfingarlífeyris og ná til breiðari hóps af fólki en áður. Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru fyrir fólk sem fær viðurkennda meðferð, tekur þátt í endurhæfingu, bíður eftir að komast að í viðurkenndri meðferð eða endurhæfingarúrræði með það að markmiði að stuðla að aukinni þátttöku á vinnumarkaði eða eftir því að viðkomandi teljist fær um að hefja meðferð eða endurhæfingu. Til grundvallar greiðslunum liggur endurhæfingaráætlun sem tryggja skal að taki mið af þörfum einstaklingsins hverju sinni.
- Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur stoppa í göt sem eru í kerfinu í dag. Með þeim er komið á samfelldu greiðslutímabili fyrir fólk í endurhæfingu. Markmiðið er að draga úr áhyggjum fólks af framfærslu sinni meðan á ferlinu stendur, halda betur utan um fólk og auka líkur á farsælli endurkomu þess til vinnu.
Samþætt sérfræðimat:
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að horfið verði frá örorkumati eins og við þekkjum það í dag, en þess í stað tekið upp samþætt sérfræðimat sem er heildrænt mat á getu viðkomandi til virkni á vinnumarkaði. Matið byggir á hugmyndafræði alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu (International Classification of Functioning, Disability and Health, ICF) og kemur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO. Hugsunin að baki því snýr að valdeflingu og að styðja fólk til að nýta sem best alla sína getu.
- Með nýja matinu er horft heildrænt á einstaklinginn en ekki einungis einblínt á læknisfræðilega þætti. Megináherslan er á færni viðkomandi í samspili við umhverfi og aðstæður.
Nýr örorkulífeyrir:
Lagt er til að tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar verði sameinaðir í einn flokk: Örorkulífeyri. Hann greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið metnir með enga eða mjög takmarkaða getu til virkni á vinnumarkaði (0-25%). Reglur um útreikning greiðslna eru auk þess gerðar einfaldari og skýrari og gert ráð fyrir nýju almennu frítekjumarki að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði.
- Breytingarnar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum fá hærri greiðslur í nýja kerfinu. Það á ekki síst við um þau sem lægstar greiðslur fá í dag.
Hlutaörorkulífeyrir:
Lagt er til að tekið verði upp það nýmæli að greiða hlutaörorkulífeyri. Hann er fyrir fólk sem uppfyllir ekki skilyrði fyrir örorkulífeyri en hefur ekki fulla getu til virkni á vinnumarkaði (26-50%). Þau sem hafa tækifæri til að vinna hlutastörf geta með þessu aukið ráðstöfunartekjur sínar umtalsvert því auk mögulegra launa munu þau eiga rétt á hlutaörorkulífeyrinum.
- Hlutaörorkulífeyrir hefur í för með sér verulega aukinn stuðning við þau sem ekki hafa fulla getu til virkni á vinnumarkaði en sem þó eru talin geta tekið þátt á vinnumarkaði að einhverju leyti. Þannig gefst þeim samtímis kostur á virkni og að bæta ráðstöfunartekjur sínar.
Tvö úrræði til viðbótar, virknistyrkur og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, styðja síðan enn betur við umræddan hóp sem hingað til hefur mætt hindrunum við að fara út á vinnumarkað.
Virknistyrkur:
Lagt er til að tekinn verði upp sérstakur virknistyrkur sem ætlað er að grípa fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu. Þannig er hann mikilvægur hvati til atvinnuþátttöku. Fólk getur fengið virknistyrk í allt að 24 mánuði meðan það er í virkri atvinnuleit og nýtur auk þess aðstoðar Vinnumálastofnunar við leitina. Styrkurinn fellur niður þegar og ef fólk hefur störf. Hafi fólk ekki fengið starf eftir 24 mánuði getur það óskað eftir nýju samþættu sérfræðimati.
- Virknistyrknum er ætlað að aðstoða þau sem eiga rétt á hlutaörorkulífeyri að stíga skrefið og fara út á vinnumarkað. Gangi leit að hlutastarfi ekki sem skyldi grípur virknistyrkurinn viðkomandi. Einfaldara en áður er þannig fyrir fólk að prófa sig áfram við að fara út á vinnumarkað.
Sérstakt frítekjumark þeirra sem fá hlutaörorkulífeyri:
Frítekjumark eru þær tekjur sem fólk má hafa án þess að greiðslur til þeirra lækki vegna tekna. Lagt er til að komið verði á stórauknum hvötum fyrir fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri til að fara út á vinnumarkað. Þetta er gert með því að leggja til að sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna þeirra verði 250.000 kr. á mánuði. Almennt frítekjumark þeirra verður 100.000 kr. og samanlagt getur einstaklingur sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri því haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til hans lækki.
- Í dag geta greiðslur til fólks lækkað um leið og það fær greidd laun á vinnumarkaði. Breytt frítekjumörk í nýju kerfi gefa fólki sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri tækifæri til að afla sér tekna án þess að það hafi strax áhrif á greiðslur þeirra. Fólk getur þannig aukið ráðstöfunartekjur sínar til muna.
„Fólk sem metið hefur verið á örorku hefur í gegnum tíðina gjarnan óttast það að fara út á vinnumarkað, þar sem samspil bótaflokka hefur verið flókið og áhrif annarra tekna á þá er mismunandi í núverandi kerfi og nær ómögulegt fyrir fólk að átta sig á því hvaða áhrif atvinna getur haft á greiðslur til þess. Nú hefur dæminu verið snúið við – við höfum dregið úr tekjutengingum, bæði með því einfalda kerfið sjálft og með því að leggja til alvöru hvata fyrir fólk til að fara út á vinnumarkað. Í stað þess að refsa fólki fyrir að vinna fær það í nýja kerfinu stuðning til að taka þátt á vinnumarkaði og hefur hag að því,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Fyrstu skref þegar tekin
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með skerta starfsorku. Örorkulífeyriskerfið skuli einfaldað, dregið úr tekjutengingum og það gert skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Ofangreint frumvarp miðar sem fyrr segir að þessu.
Þegar hafa tvö frumvörp verið samþykkt á Alþingi sem innihalda fyrstu skref í átt að breyttu örorkulífeyriskerfi:
- Í ársbyrjun 2023 var frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega nær tvöfaldað
- Á sama tíma varð heimilt að greiða einstaklingi endurhæfingarlífeyri í allt að fimm ár
Frumvarpisdrögin sem nú eru til umfjöllunar innihalda næstu skref í endurskoðun örorkulífeyriskerfisins. Hægt er að senda inn umsögn um þau til 29. febrúar nk.
Samhliða frumvarpinu er unnið að margvíslegum vinnumarkaðsaðgerðum. Þegar hefur stuðningur við ungt fólk í viðkvæmri stöðu til að mynda verið stórefldur til að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði.
Frumvarpsdrögin voru unnin í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og er afrakstur víðtæks samráðs við helstu haghafa, stofnanir, önnur ráðuneyti og aðra hlutaðeigandi.