Mjög mikið hefur verið að gera hjá lögreglu nú siðdegis og í kvöld en 52 verkefni hafa komið inn á borð hennar á átta klukkustunda tímabíli
Í hádeginu var hópbifreið stöðvuð en ökumaður reyndist ekki nota ökuritakort eins og honum bar. Ökumanni og viðkomandi fyrirtæki voru gerð sekt vegna málsins. Klukkan 15:00 var ökumaður handtekinn í Hafnarfirði vegna gruns um að hafa ekið ölvaður.
Um hálf fimm í dag voru höfð afskipti af ungmennum í Hafnarfirði sem voru að sprengja flugelda svo þau höfðu rifið í sundur. Barnaverndaryfirvöldum hefur verið gert viðvart um málið sem og foreldrar ungmennanna látnir vita af háttseminni. Laust fyrir kl.17:00 þá var ráðist að ökumanni sem var með bilaðan bil á bifreiðarstæði í Austurbænum. Ökumaður var að vinna að viðgerð þegar veist var að honum en um minniháttar bilun var að ræða í bifreiðinni. Árásaraðilar brutu rúður í bifreiðinni og fóru svo á brott, talsvert einkatjón varð en engin meiðsli urðu á fólki.
Klukkan 18:20 voru höfð afskipti af bifreið í Hafnarfirði sem hafi verið tilkynnt til lögreglu vegna aksturslags hennar og aksturs gegn rauðu ljósi. Ökumaður fékk sekt fyrir. Hálftíma síðar var tilkynnt um brunavarnarkerfi í gangi í íbúð í Vallahverfinu í Hafnarfirði. Íbúar höfðu sofnað áfengissvefni og láðst að slökkva undir potti sem var á eldavélinni. Reykræsta þurfti íbúðina.
Karlmaður var handtekinn í Breiðholti kl.20:48 eftir að hafa veist að lögreglu með ofbeldi. Lögregla var kölluð til það sem aðilinn hafði hótað og ráðist á aðra með ofbeldi. Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu. Rúmlega níu í kvöld fékk svo lögreglan tilkynningu um líkamsárás í Hraunbæ. Vitað hver hinn grunaði er og málið er til rannsóknar hjá lögreglu.
Rétt fyrir hálf tíu var tilkynnt um líkamsárás í Mosfellsbær, tveir meiddir en þau minniháttar og á sama tíma var aðili handtekinn eftir að tilkynning barst frá vegfaranda vegna aksturslags ökumanns bifreiðarinnar. Ökumaður reyndist vera undir áhrifum fíkniefna sem og vera með fíkniefni í fórum sínum. Hann reyndist líka vera vopnaður eggvopnum.
Á sama tíma var einnig tilkynnt um innbrot í heimahús í salahverfi í Kópavogi. Ekki vitað hverju var stolið en lögreglumenn eru enn að vinna á vettvangi brotsins.
Rétt fyrir klukkan tíu í kvöld var aðili handtekinn í austurbænum vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og annar handtekinn í vesturbæ Reykjavíkur vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.
Klukkan 22:20 var tilkynnt um eld í einbýlishúsi í Breiðholti. Þegar lögregla kom á vettvang ásamt slökkviliði þá var búið að slökkva eldinn af íbúum en það þurfti að reykræsta. Tuttugu mínútum síðar var tilkynnt um tvo menn vera í átökum í heimahúsi og að þeir væru að beina hnífum gegn hvor öðrum í austurbæ Reykjavíkur. Mennirnir höfðu lagt niður hnífana þegar lögreglu bar að. Engin meiðsli urðu á fólki.