Í nótt var tilkynnt um innbrot í matvöruverslun á Seltjarnarnesi. Búið var að brjóta rúðu og fara inn. Ekki er vitað hverju var stolið en innbrotið átti sér stað fyrir rúmum klukkutíma. Einnig var tilkynnt um innbrot á öðrum tímanum í nótt í bensínstöð í auturhluta borgarinnar. Brotin hafði verið rúða og farið inn. Ekki er vitað hverju var stolið að svo stöddu.
Þá var maður handtekinn í gærdag, grunaður um þjófnað úr verslun á Fiskislóð í Reykjavík. Maðurinn hafði sett varning innan klæða og var stöðvaður er hann ætlaði að yfirgefa verslunina. Manninum var haldið þar til lögregla kom á vettvang.
Rétt fyrir klukkan sjö í gær, var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Kópavogi, hann var gestkomandi í húsi og vildi ekki fara þaðan. Maðurinn er grunaður um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Klukkan 19:08 var bifreið stöðvuð í austurbænum og var ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og hafði ekki ökuskírteini sitt meðferðis.