
Staðan er þessi á Íslandi dagsins í dag. Fjölskyldur teljandi á fingrum annarrar handar eiga landið til sjávar og sveita. Ekki fjölskyldurnar fjórtán heldur fjölskyldurnar fimm.
Einu sinni var talað um Ísland sem stéttlaust land. Það var firra þá en enn meiri firra nú. Og það sem verra er er að stærstu fjölmiðlar landsins eru í eigu sömu fjölskyldna og eiga landið fyrir utan RUV sem rekur eigin áróðurspólitík. Ísland er spilltasta ríki í norðri jarðar.
Hvernig má slíkt vera í svo smáu samfélagi sem ætti í raun að vera fyrirmynd annarra samfélaga um jöfnuð og velferð? Og af hverju nefni ég þetta? Af því að enginn nefnir þessi ósköp í aðdraganda kosninga. Enginn fjölmiðill nennir að kíkja á þetta. Aðalatriðið fram að kosningum verður COVID og eldgos.
Vissulega vekur jarðskjálfti þjóðina enda ættu hér allir að vita að við búum á eldeyju. Og við sofum fullviss um að Kristján Már Unnarsson mun vekja þjóðina löngu áður en að gjósa fer. Vikum áður og kviku áður.
En hver ætlar að vekja þá þjóð sem djúpt blundar sátt við að hér vaki hin réttláta stéttlausa þjóð? Það er kominn tími til að ræsa þyrlurnar og vekja fólkið.