Héraðsdómur úrskurðar í dag hvort Lindarhvoll, félag í ríkiseigu, hafi staðið rétt að sölu á félaginu Klakka. Söluverðið var 505 milljónir, en félagið hafði verið verðmetið af Deloitte á einn milljarð og því varla hægt segja annað en að eignin hafi verið seld á hrakvirði. Þetta er fyrsta dómsmálið tengt sölu Lindarhvols á ríkiseignum en ríkisútvarpið fjallar ítarlega um vinnubrögð á sölum ríkiseigna í gegnum einkahlutafélag ríkisins, Lindarhvol.
Vogunarsjóður á Cayman-eyjum eignast ríkiseign
Forsvarsmenn Frigusar sem áttu næst hæsta kauptilboð í félagið Klakka telja að útboðsferlið hafi verið meingallað og með því hafi verið brotið gegn félaginu og er krafist skaðabóta upp á 650 milljónir króna frá ríkinu. Endurskoðendaskrifstofan Deloitte mat hlut Lindarhvols í Klakka á tæpan milljarð árið 2016.
Frigus fékk tilboð sitt ekki samþykkt. Félagið bauð 501 milljón króna en hæsta boð var frá félagi BLM fjárfestingar, dóttufélagi erlenda vogunarsjóðsins Burlington Loan Management. Það var 505 milljónir. En fjárfestingarsjóðurinn er með heimilisfesti á Cayman-eyjum.
Mál Frigusar veitir sjaldséða innsýn í starfsemi Lindarhvols, eignarhaldsfélags í ríkiseigu sem mikil leynd hefur hvílt yfir og hér er hægt að lesa nákvæma úttekt um málið á vef RÚV.is