6.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

,,Ég get ekki lækað, því þá missi ég vinnuna“ – Prestur flytur eldmessu

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Eldmessa Arnar Bárðar Jónssonar við sjávarútvegs- ráðuneytið þegar krans var lagður á leiði ónýtrar sjávarútvegsstefnu stjórnvalda á sjómannadaginn 2022

Prestur fordæmir erfða- og gjafakvótakerfið í predikun – Þjóðþing eða þjófþing?

Örn Bárður Jónsson á fundi sem haldinn er af hreyfingunni Við fólkið í landinu við Sjávarútvegshúsið í tilefni sjómannadagsins 12. júní 2022. Hann sagði m.a.: Ég ætla að tala við ykkur um mesta órétt síðari tíma og leiðina til að bæta úr honum. Þú getur lesið þúsund skýrslur um kvótakerfið án þess að skilja upp né niður í því en svo tók listafólkið til sinna ráða og útbjó sjónvarpsseríuna Verbúðin og þjóðin skildi allt í einu hvernig hið rotna kerfi varð til, skildi það alveg ofan í kjöl.

Lifi listin og menningin í þessu landi ómenningar í sjávarútvegsmálum!

Hver á fiskinn í sjónum? Íslenska þjóðin.

Hver á óveidda fiskinn? Íslenska þjóðin.

Hver getur framselt hann? Íslenska þjóðin.

En hvað hefur gerst?

Hinir gráðugu efldust og misstu sig, þeir sem fengu leyfi til að veiða fiskinn gegn vægu gjaldi, mjög vægu sem síðar var lækkað. Ábyrgðarlaus yfirvöld gerðu þeim vinargreiða, marga slíka. Þau krupu og kysstu gullhringa greifanna sem fengu að veiða fyrir nánasargjald. En svo fóru greifarnir að víla og díla. Þeir voru eins og leigjandi sem allt í einu fær þá flugu í höfuðið að íbúðin, sem hann býr í og leigir, sé hans eign. Hann veðsetur hana. Hann selur hana vinum. Þeir selja öðrum og svo koll af kolli. Svo lifa þeir í von um að eigandinn gleymi málinu og að þeir fái eignarrétt byggðan á hefð, á döngunarleysi stjórnvalda.

Stjórnmálamenn skjálfa yfir því í hvaða ógöngur gjafakvótamálið er komið í. Þeir ráða ráðum sínum og eru með alvarlegar áhyggjur yfir því hvernig þeir geti náð gjafakvótanum aftur og sérstaklega eru þeir skjálfandi á beinum yfir því hve mikið þeir þurfi að borga þeim sem tóku, víluðu og díluðu, seldu og bókfærðu með hjálp löggiltra endurskoðenda og lögfræðinga sem eru vísast allir með „master“ í einhverjum sérfræðum, búnir að grafa sér sérfræðiskurð, sem þeir sjá ekki upp úr og týna þar með allri yfirsýn, öllu samhengi, siðviti og tengslum við þjóð sína. Ársreikningarnir líta vel út og gróðinn er gígantískur.

Og nú er best að koma þessu yfir á næstu kynslóð, láta börnin erfa svo að ekki verði hægt að ganga að gróðanum, stolna kvótanum, sérstaklega í ranni þeirra, sem munu kannski þurfa að borga háar sektir vegna mútugreiðsla í þróunarlöndum þar sem mútuþegarnir sitja í fangelsi og hafa setið svo mánuðum skiptir meðan þeir er reiddu fram fégjafir í förmum telja gróðann, velgreiddir í sparifötum, baðandi börnin sín í seðlum, óhultir í spilltu landi.

Hvað vilja greifarnir fá greitt fyrir að skila gjafakvótanum, veiðiheimildunum? Þarf að greiða þeim eitthvað fyrir þýfið?

Þýfi er það, því hér er um að ræða eign þjóðarinnar, sem gæslumenn hagsmuna hennar, ríkisstjórnir í röðum, gættu ekki. Þær hafa brugðist hver á eftir annarri, áratugum saman og legið hundflatar fyrir dreissugum greifunum.

Svo eru það alþingismennirnir sem þjóðin hefur kosið til að gæta hagsmuna hennar. Hafa þeir gert það? Hefur þeim tekist að ná þýfinu til baka? Hafa þeir reynt það? Vilji þeirra flestra til réttlætis í þessum efnum mælist varla með næmustu mælitækjum öflugustu vísinda heimsins.

En nú á víst að reyna eitthvað nýtt. Guð láti gott á vita. Töfralausnir margra stjórnmálamanna felast í því að setja mál í nefnd. Einhver sagði að nefnd nokkur hefði fengið það verkefni að hanna veðhlaupahest. Útkoman var þungur og svifaseinn tréhestur.

Hér þarf meira en smáskammtalækningar og engin ástæða er til þess að bæta útgerðinni nokkurn skapaðan hlut. Enginn þarf að bæta mönnum fyrir að hafa keypt stolið þýfi. Hið eina sem ríkisstjórnin þarf er vilji og kjarkur til að höggva á sjálfan Gordionshnút gjafakvótamálsins. Í tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er skotheld grein um auðlindir landsins. En það er einmitt sú grein sem meirihluti þingmanna hefur óttast svo í meir en áratug að þeir hafa ætíð horft lymskulega framhjá glæpum þingsins. Greinin er skotheld hvað varðar hag þjóðarinnar og það þola þingmennirnir ekki sem þjóna greifunum, meðvitað eða ómeðvitað.

Og á meðan ekkert gerist skelfur jörð og „þrúgur reiðinnar“ dafna í hjörtum fólks og þyngjast og þegar þær verða loks uppskornar mættu sumir fara að biðja

fyrir sér. Útgerðaraðallinn sem telur sig eiga veiðiheimildirnar, á engar heimildir. Þær eru fengnar að lán í upphafi og svo teknar traustataki, stolið og stungið í bólgna vasa. En allir siðaðir menn vita að því sem fengið er að láni ber að skila í sama ástandi og var.

Hvers megum við vænta, almenningur þessa lands? Er hlustað á þau sem líða fyrir órétt og sérhygli hinna voldugu? Erum við sem kveinum undan óréttinum kannski skyld þeim manni sem Steinn Steinarr orti um ljóðið Eftirmæli?

1. 2. og 8. vers hljóða svo:

Þú varst bæði auralaus og illa klæddur maður,

með afar stóra fætur og raunalegar hendur.

Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum, sem slíkur,

og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.

Og sjaldan heyrðist talað um sálargáfur þínar,

og sennilegt þær hafi frekar lítinn ávöxt borið.

Þú þekktir hvorki leyndardóma þessa heims né annars.

Og það var ekki meira en svo þú kynnir Faðirvorið.

Þér hrotnuðust þó molarnir af höfðingjanna borðum,

en hamingjan má vita, hvort þú skildir miskunn slíka,

og hvort þú hefir lifað samkvæmt lögmáli vors herra,

sem lætur þorskinn veiðast fyrir fátæka sem ríka.

Fátækt verður kannski aldrei útrýmt og óréttinum ekki heldur, en við erum sem þjóð kölluð til að setja markið á hinn ómögulega möguleika í voninni um að eitthvað muni þokast í réttlætisátt þegar horft er til þeirra sem hafa allt og hinna sem ekki hafa.

Ef Steini hefur keypt af Binna það sem þegið var að láni og Binni selt Guggu og hún einhverjum öðrum, þá hafa þau selt og keypt þýfi. Greifarnir og greifynjurnar hafa því engan rétt fremur en sætkenndur sólarlandafari, sem eins og flattur þorskur á þurrkreiti, keypti svikið Rolex-úr af götusala.

En hér er ekki um neina eftirlíkingu að ræða. Kvótinn er ekki svikin vara. Hann er ekta og hann er eign þjóðarinnar. En greifarnir eru hins vegar orðnir eins og hverjir aðrir götusalar sem braska.

Skilið kvótanum án þess að krefjast bóta fyrir svindlið, fyrir þjófnaðinn, fyrir ósvífnina gegn eigandanum – þjóðinni! Eyðið fölskum eignfærslum í svindlbókhaldinu ykkar og gerið upp svikin!

Hver á fiskinn í sjónum? Íslenska þjóðin.

Hver á óveiddan fiskinn? Íslenska þjóðin.

Hver getur framselt hann? Íslenska þjóðin.

Komið er að skuldadögum. Skilið þýfinu! Annars endar Ísland með nýja höfuðborg fyrir austan fjall og nýjan flugvöll í Flóanum, eitt álver fyrir allt landið, sem drekka mun vatn úr öllum fossum, fiskeldi greifanna í hverjum firði, yfirgefin sjávarþorp og svo eitt risaverksmiðjuskip í Þorlákshöfn sem sogar eitt og sér upp allan veiðanlegan fisk í kringum Ísland. Og einn eigandi yfir öllu! Einn kóngur!

Viljum við það!

Nei við viljum það ekki en við viljum að kvótinn verði leigður fyrir fullt gjald og ekki krónu minna, fullt gjald en ekki málamyndargjald sem stjórnmálamennirnir reyna að búa til fyrir greifana, vini sína sem þeir þjóna og liggja hundflatir fyrir.

Við viljum breytingar, við viljum róttækar breytingar, við viljum bylta þessu rotna kerfi!

Kvótann heim til þjóðarinnar, kvótann heim, kvótann heim . . . !

Gleðilegan hátíðisdag íslenskra sjómanna!

Samherji hf. sagður vilja hræða Jóhannes Stefánsson svo hann beri ekki vitni í Namibíu

Einn reyndasti fiskifræðingur landsins gagnrýnir kvótakerfið

https://frettatiminn.is/28/04/2021/kvotagreifi-sem-leigir-fra-ser-kvota-borgar-ekki-kronu-til-samfelagsins/