Frá árinu 2015 hefur aldrei verið tilkynnt um fleiri heimilisofbeldismál á landsvísu í einum mánuði en í maí 2020. Heimilisofbeldismál voru 17,6% fleiri í lok júlí (31. viku ársins 2020) miðað við sama tímabil 2019.
Hlutfallið var hærra, eða 20,5% í lok júní (vika 26). Samanburður við árið 2018 (viku 31) sýnir 9,7% hækkun. Fleiri brot hafa átt sér stað í fimm af níu embættum á sama tímabili ársins 2020 heldur en á sama tíma í fyrra. Sú er raunin hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglunni á Suðurnesjum og hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra, Austurlandi og Vesturlandi.
- Meðalfjöldi brota á viku:
2018 = 17,9 brot.
2019 = 16,7 brot.
2020 = 19,6 brot.
Meðal fjöldi brota í mánuði getur verið breytilegur eftir mánuðum en yfir allt tímabilið 2018-2020 var meðaltalið 79 brot í hverjum mánuði. Þegar um er að ræða brot sem byggja á að fólk tilkynni það til lögreglu, eins og heimilisofbeldi, er ekki er hægt að vita eingöngu út frá lögreglugögnum hvort brotum sé í raun að fjölga eða hvort tilkynningum sé að fjölga.
Mjög mikilvægt er að fylgjast með þessari þróun. Þegar meta á hvort um raunbreytingar á fjölda brota hafi verið að ræða eða ekki, þarf að skoða reynslu almennings af brotum samhliða. Slíkt er gert til dæmis með þolendakönnunum sem lögregla gerir árlega í upphafi árs þar sem spurt er um reynslu frá fyrra ári.