Góður og fjölmennur fundur um samstarf vegna afbrotavarna á Ísafirði
Annar kynningarfundur um svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og öðrum afbrotum fór fram í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði í gær, en boðað var til fundarins að frumkvæði lögreglustjórans á Vestfjörðum.
Meðal góðra gesta voru bæjarstjórar Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur og sveitarstjórinn í Súðavíkurhreppi, sýslumaður Vestfjarða, forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, sviðsstjórar skóla og tómstundamála Ísafjarðarbæjar og velferðasviðs. Einnig félagsmálastjóri Bolungarvíkur, ásamt lykilfólki á þessu sviði frá hverri stofnun.
Samstaða var á fundinum um að hefja verkefnið og verður næsta skref að skipa undirbúningsteymi til að móta sameiginlega samstarfsyfirlýsingu og aðgerðaáætlun um ofbeldis- og afbrotavarnir fyrir svæðið.
Síðasti kynningarfundurinn verður haldinn í dag á Patreksfirði með lykilaðilum úr Vesturbyggð.