Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í gærkvöldi eftir að tilkynning barst um að konu hefði verið hrint fram af svölum í Breiðholti.
Tilkynning um málið barst lögreglu rétt fyrir klukkan 21 í gærkvöldi og var konan flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Sakborningur var handtekinn á vettvangi og hann vistaður í fangageymslu. Málið er í rannsókn.
Þá fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um tvo menn sem slógust utandyra í miðborginni um kvöldmatarleytið í gær. Mennirnir voru sagðir hafa dregið upp hnífa. Lögregla brást skjótt við og handtók báða mennina og við leit á þeim fundust hnífar sem lagt var hald á. Þeim var báðum sleppt að lokinni skýrslutöku.
Á tíunda tímanum í gærkvöldi stöðvaði lögreglan svo tvo fimmtán ára pilta í Breiðholtsskóla eftir að innbrotskerfi skólans fór í gang. Þeir eru einnig grunaðir um þjófnað og skemmdarverk. Foreldrar drengjanna voru kallaðir til og barnavernd gert viðvart um málið. Þá voru nokkrir handteknir fyrir ölvunar og/eða fíkniefnaakstur.