Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað í vesturbæ Kópavogs á sjötta tímanum í dag eftir að tilkynnt var um vopnaðan mann á göngu á Kársnesbraut, en tilkynnandi kvaðst jafnframt hafa heyrt skothvell.
Málið var metið mjög alvarlegt og var viðbúnaður í samræmi við það, en lögreglumenn vopnuðust og sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til eins og venjan er við aðstæður sem þessar.
Í framhaldinu var maður handtekinn við hús við götuna, en fljótt kom í ljós að um misskilning var að ræða og reyndist enginn byssumaður yfirhöfuð hafa verið þarna á ferð í Kópavogi.
Manninum sem var handtekinn, og fjölskyldu hans, var að vonum mjög brugðið við aðgerðir lögreglu og því var kallað eftir áfallahjálp til að takast á við þessa óþægilegu atburði dagsins.
Umræða