ÖBÍ fagnar því að frumvarpið sem hér er til umsagnar hafi verið lagt fram aftur og lýsir yfir eindregnum stuðningi við að það verði samþykkt. ÖBÍ hvetur nefndina til að afgreiða þetta mikilvæga frumvarp úr nefnd þannig að það komist í þinglega meðferð. Það er mikið réttlætismál fyrir lífeyristaka að tryggt verði að kjaragliðnunin haldi ekki áfram.
Verði frumvarpið að lögum er gegnsæi tryggt við ákvörðun um breytingar á greiðslum almannatrygginga og að ákvörðunin byggi á sömu skýru forsendum og þar með afmörkuðu reiknireglu og við hækkun launa skv. 1. mgr. 15. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað nr. 88/1995. Núverandi fyrirkomulag fyrir breytingar á greiðslum almannatrygginga byggir hins vegar á áætlunum og spám fram í tímann, sem sjaldnast standast og eru ekki leiðréttar. Mun eðlilegra er að þær byggi á rauntölum.
Lífeyristakar eru í sömu stöðu og þau sem falla undir lög nr. 88/1995 þar sem þeir semja ekki um hækkanir lífeyris, hafa ekki verkfallsrétt og eru í raun upp á stjórnvöld komin hvað varðar breytingar á lífeyrisgreiðslum. Í 15. gr. þeirra laga er ákvæði um hækkun til þeirra sem falla undir lögin, í greininni segir:
„Í þessu ákvæði kemur skýrt fram hver viðmiðunarhópurinn er (starfsmenn ríkisins), hvaða launahugtak er miðað við (regluleg laun), hvaða breytingu eigi að horfa til (breytingin á meðaltali), tímabilið sem er byggt á (næstliðið almanaksár) og hvenær breytingin skuli eiga sér stað (1. júlí ár hvert). Þá er skilgreint hver eigi að annast greininguna sem liggur til grundvallar (Hagstofa Íslands).“
Í Félagsmálasáttmála Evrópu, samningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um að einstaklingar skuli njóta stöðugt batnandi lífskjara og að ríkið skuli tryggja að slíkt fái forgang. Þingmál þetta varðar ákaflega mikilvæga hagsmuni borgaranna, enda varðar það hvernig þróun framfærslu þúsunda einstaklinga skuli háttað. Ákvarðanir í slíkum málum verða stjórnvöld að taka föstum tökum og byggja á ákvæði sem tryggir gegnsæi og að kjör lífeyristaka haldi í við kjör annarra hópa.
Eins og fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu hafa greiðslur almannatrygginga ekki hækkað til samræmis við vísitölu neysluverðs eða launavísitölu, frá því að núverandi ákvæði um árlega breytingu greiðslna almannatrygginga var innleitt. Af þessu leiðir að lífeyristakar hafa þurft að þola verulega uppsafnaða kjaragliðnun frá árinu 1997, eða 64%, eins og fram kemur í töflu í greinargerð frumvarpsins. Ef farið hefði verið eftir 69. gr. laga um almannatryggingar (nú 62. gr.) um að ákvörðun um hækkun lífeyris skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs þá væri lífeyri almannatrygginga 64% hærri en hann er í dag.
Kjaragliðnunina má að mestu rekja til þess hvernig fjármála- og efnahagsráðuneytið reiknar út væntanlega launaþróun í fjárlagafrumvarpi hvers árs, eins og rakið er í greinargerðinni með frumvarpinu. Árum saman hefur fjármálaráðuneytið metið horfur um almenna launaþróun við fjárlagagerð í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Þegar kemur að ákvörðun um breytingu á greiðslum almannatrygginga er hinsvegar miðað við lægri prósentutölu í stað þess að miða við almenna launaþróun í fjárlagagerð.
ÖBÍ hefur ítrekað sent beiðnir til fjármálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins um útskýringu á því hvernig staðið væri að útreikningi á árlegri breytingu á greiðslum almannatrygginga auk þess sem þingmenn hafa sent inn fyrirspurnir. Þær eftirgrennslanir hafa leitt í ljós algjöran skort á gegnsæi. Til grundvallar breytingu á greiðslum almannatrygginga ætti að liggja fyrir skýrt afmörkuð reikniregla sem er með ákveðna fasta sem byggja á ákveðnum forsendum. Svör fjármálaráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytis hafa verið mjög óljós og ráðuneytin ekki getað gefið upp reikniregluna sem virðist byggð á huglægu mati hverju sinni. Fjármálaráðuneytið hefur farið þá leið að skýra hugtakið launaþróun þannig að hægt sé að taka út úr því ákveðna þætti eftir því hvernig staðan er hverju sinni, t.d. launaskrið. Á heimasíðu Hagstofu Íslands, sem reiknar út launaþróun kemur fram að mánaðarleg launavísitala mælir mánaðarlegar breytingar á reglulegum launum á íslenskum vinnumarkaði og sýnir almenna launaþróun.
Auk þess hafa greiðslur almannatrygginga ítrekað hækkað minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs, þrátt fyrir að ákvæðið ætti að tryggja að slíkt gerðist ekki, sbr. dæmi um tímabil í greinargerð frumvarpsins.
Vakin er athygli á því að í greinargerð sem fylgdi með þegar núverandi 69. gr. var samþykkt var gert ráð fyrir að frítekjumörkum yrði breytt samhliða árlegum breytingum greiðslna almannatrygginga.
Sá annmarki hefur aftur á móti verið á framkvæmd ákvæðisins að ítrekað hefur farist fyrir að hækka frítekjumörk almannatrygginga samhliða hækkun greiðslna og fjárhæða samkvæmt lögunum. Farist hefur fyrir að hækka almenn frítekjumörk örorkulífeyris, sbr. nú 4. mgr. 30. gr. laga nr. 100/2007 og frítekjumark örorkulífeyris vegna fjármagnstekna, sbr. nú 3. mgr. 30. gr. laganna, samfellt frá árinu 2009 þegar þau voru síðust hækkuð með reglugerð um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar nr. 1190/2008. Hið sama gildir um frítekjumark tekjutryggingar vegna lífeyrissjóðstekna, sbr. nú 5. mgr. 30. gr. laga nr. 100/2007 og um frítekjumark tekjutryggingar vegna fjármagnstekna sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga, en þau hafa ekki heldur hækkað frá því að þau voru hækkuð með reglugerð nr. 1190/2008 á árinu 2009.
Frítekjumark tekjutryggingar vegna atvinnutekna stóð þá í stað frá árinu 2009 allt til ársins í ár þegar það var loks hækkað um nærri helming í bráðabirgðarákvæði við lögin, sem gildir út árið 2023, úr 1.315.200,- kr. á ári í 2.400.000.- kr. á ári.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Almannatryggingar (raunleiðrétting)
111. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 13. október 2023