Vegna umfjöllunar um erfiðleika ekkju við að fá mjólkursöluleyfi þykir MAST rétt að taka fram að í þeim tilfellum þar sem annað hjóna/sambúðafólks er skráð fyrir leyfi til mjólkursölu og sá aðili fellur frá þarf að gefa út nýtt leyfi. Ýmis rekstararform eru í mjólkurframleiðslu en þetta á við þegar kúabú eru rekin á kennitölu einstaklinga.
Í þeim tilfellum þar sem almenn fjósaskoðun hefur ekki farið nýlega fram er hún framkvæmd samhliða þeim breytingum, en þessar reglubundnu eftirlitsheimsóknir eru hluti af reglubundnu eftirliti Matvælastofnunar með mjólkurframleiðendum.
Nánast undantekningalaust er mjólkursöluleyfi gefið út á þann aðila sem tekur við búskapnum en fram að þeim tíma er mjólk lögð inn á dánarbú viðkomandi aðila. Í þessu tilviki var eftirlit framkvæmt daginn eftir að umsókn barst og mjólkursöluleyfi veitt.
Í kjölfar umfjöllunar sem þessarar er rétt að taka til skoðunar hvort réttara væri að þeir aðilar sem standa að leyfisskyldri framleiðslu skulu allir vera skráðir sem leyfishafar til að auðvelda umskipti sem þessi.
Eftirlitsfólk Matvælastofnunar er þjálfað fagfólk á sínu sviði og reynir að taka tillit til þeirra aðstæðna sem eftirlitsþegar eru í. Þó er meginmarkmiðið ávalt það að sinna skyldum sínum gagnvart þeim hlutverkum sem stofnunin fer með.