Mesta greiðslubyrði verðtryggðra lána frá hruni
Greiðslubyrði fasteignaverðs sýnir þróun á þeirri greiðslubyrði sem þarf til að fjármagna íbúðarkaup með lánum. Vísitalan tekur þannig tillit til bæði íbúðaverðs á föstu verðlagi og vaxta á íbúðalánum. Þetta kemur fram í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Heimili landsins greiddu að jafnaði 5,7 prósent af ráðstöfunartekjum í vaxtagjöld í fyrra og hlutfallið hefur ekki verið hærra frá 2016.
Greiðslubyrði hefur hækkað um allt að 16.2% á einu ári
Ef miðað er við verðtryggð íbúðalán hefur greiðslubyrði fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 10,1% á þessu ári, en haldist óbreytt sé miðað við óverðtryggð lán.
Greiðslubyrði fasteignaverðs miðað við óverðtryggða vexti hækkaði töluvert á síðasta ári eða alls um 16,2% á meðan greiðslubyrði miðað við verðtryggða vexti hækkaði minna eða um 11,5%
Samhliða hærri verðtryggðum vöxtum hefur greiðslubyrði fasteignaverðs miðað við verðtryggða vexti hækkað á síðustu mánuðum. Sú greiðslubyrði hefur ekki verið jafnmikil frá árinu 2009, þegar verðtryggðir vextir á húsnæðislánum hækkuðu vegna gengishruns og verðbólguskots eftir fjármálahrunið árið 2008.