Tori Lynn lýsir í þessu heiðarlega viðtali foreldraútilokun sem hún varð fyrir í æsku og áhrifunum sem hún hafði á sjálfsmynd hennar. Í frásögninni koma fram mörg einkenni útilokunarinnar fyrir utan þau augljósu að móðirin sleit tengsl hennar við föðurinn; baktalið um hann, hvernig móðirin setur Tori í fullorðinshlutverk gagnvart sér og varpar ábyrgð á hana, afneitar henni fyrir að líkjast föður sínum og yfirgefur hana svo þegar henni hentar.
Tengslaröskunin sem Tori er greind með sem afleiðing af þessu ofbeldi hamlar getu hennar til að geta átt í nánum samböndum um ókomna tíð þar sem hún getur illa treyst fólki tilfinningalega. Tengslarof er alvarleg afleiðing foreldraútilokunar fyrir börn og getur haft afar neikvæð áhrif á framtíðarhamingju þeirra.
Tori segir móður sína kljást við andleg veikindi en skilgreinir það ekki nánar. Hegðun móðurinnar er hins vegar mjög svipuð hegðun annarra útilokunarforeldra sem sjaldnast hafa verið greindir með andleg veikindi. Rannsóknir sýna að þeir sem beita foreldraútilokun eiga oft við sjálfhverfu eða jaðarpersónuleikahegðun að stríða.
Í viðtalinu kemur einnig sterkt fram hvað faðirinn hefur saknað dóttur sinnar mikið og þráð tengsl við hana aftur. Foreldrar sem missa börn sín í foreldraútilokun búa við djúpa og oft langvarandi sorg sem yfirleitt er ekki viðurkennd í samfélaginu. Lítill skilningur á þessu flókna mynstri gerir það að verkum að þeir fá oft ekki þann stuðning sem þeir þurfa.
Útilokaðir foreldrar þjást
Útilokaðir foreldrar þjást í hvert skipti sem barnið fagnar tímamótum sem þeir fá ekki að taka þátt í; afmælum, tómstundum, jólum, páskum o.s.frv. Þjáning þeirra er oft það mikil að hún skaðar getu þeirra til að taka þátt í samfélaginu, vinnuframlag minnkar og þessir foreldrar eiga meiri hættu á að þjást af þunglyndi, sjálfsvígshugsunum og veikindum vegna áfallsins – sem er síendurtekið.
Viðbrögð vel meinandi vina hjálpa stundum ekki eins og: „Þú þarft bara að halda áfram og gleyma þessu. Vertu í nútíðinni, ekki fortíðinni,“ „þetta getur ekki verið svona slæmt,“ eða eitt af því versta; „kannski gerðirðu eitthvað til að eiga þetta skilið.“ Vandamálið fyrir útilokaða foreldra er einmitt það að þeir – öfugt við aðra foreldra – mega helst ekki vera mannlegir og gera eðlileg mistök án þess að eiga á hættu að það sé notað gegn þeim til að auka á útilokunina. Ekki bara af hálfu útilokunarforeldrisins, því stundum auka stofnanir sem vinna með þessi mál á útilokunina vegna vanþekkingar á foreldraútilokunarfræðunum.
Hjá útilokaða foreldrinu lifir oft vonin um að þegar barnið verði fullorðið, 18 ára, hafi það loksins frelsi frá hinu foreldrinu til að hafa samband. Hins vegar hefur viðhorfsstýring útilokunarforeldrisins yfirleitt virkað og barnið er orðið hluti af hinu eitraða mynstri. Það getur því tekið langan tíma fyrir uppkomið barn að komast út úr því og sjá útilokaða foreldrið sem öruggt, elskandi og að það sé til staðar fyrir það.
Tapaði ekki bara föður sínum, heldur allri föðurfjölskyldunni
Tori tapaði ekki bara föður sínum, heldur allri föðurfjölskyldunni í tæpa tvo áratugi. Stórfjölskyldu sem hefði getað veitt henni stuðning í æsku, aukið tengslagetu hennar, verið fyrirmynd að mörgu leiti og bætt við fjölbreytileika í lífi hennar.
Hlutverk stjúpforeldra getur skipt sköpum og í lífi Tori reyndust stjúpfaðir hennar og síðar stjúpmóðir henni einstaklega vel. Hún býr að því.
Takk fyrir að deila sögu þinni Tori. Hún skiptir miklu máli fyrir þá sem lenda í þessari tegund ofbeldis
Foreldrajafnrétti vill einnig þakka Auði Ösp Guðmundsdóttur, blaðamanni, fyrir vandaða umfjöllun um þetta viðkvæma málefni.
„Hæ, ég held að þú sért blóðfaðir minn“