Efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins
Hagstofa Íslands hefur tekið saman upplýsingar um helstu efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins (Covid-19).
Í þessari samantekt eru fjöldatölum og fjárhæðum helstu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins gerð skil. Samantektin nær bæði til stuðnings við rekstraraðila sem og við einstaklinga og eru niðurstöðurnar m.a. brotnar niður á mánuði, atvinnugreinabálka, kyn og búsetu. Niðurstöður samantektarinnar byggja á gögnum sem Hagstofa Íslands hefur aflað frá Skattinum, Seðlabanka Íslands, Vinnumálastofnun og Dómstólasýslunni og nær til eftirfarandi stuðningsaðgerða:
- Atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli (hlutabætur)
- Greiðsla launa á uppsagnarfresti
- Lokunarstyrkir
- Greiðsla launa í sóttkví
- Stuðningslán
- Viðbótarlán
- Skattfrestanir
- Greiðsluskjól
Markmið
Markmið þessarar birtingar er að veita upplýsingar um helstu stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins, hvert umfang þeirra er og hverjir njóta þeirra helst.
Heildarfjárhæð stuðningsaðgerða nam tæplega 60 milljörðum króna
Hagstofa Íslands hefur tekið saman upplýsingar um helstu efnahagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna kórónuveirufaldursins Covid-19 og ná niðurstöðurnar yfir tímabilið mars til desember 2020.*
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nam heildarfjárhæð veitts stuðnings til rekstraraðila og einstaklinga tæplega 60 milljörðum króna. Þar af nam beinn fjárhagsstuðningur um 38,4 milljörðum króna, frestun skattgreiðslna um 9,7 milljörðum króna og veittar lánaábyrgðir um 11,8 milljörðum króna.
Alls 3.106 rekstraraðilar nýtt sér stuðningsúrræði
Heildarfjárhæð veitts stuðnings til 3.106 rekstraraðila, hvort sem er í formi frestunar skattgreiðslna, beinna styrkja eða veittra lánaábyrgða, nam tæplega 35,5 milljörðum króna. Af þeim rekstraraðilum sem nýttu sér eitthvert ofangreindra úrræða nýttu 708 rekstraraðilar fleiri en eitt úrræði. Alls hefur 23 rekstraraðili sótt um greiðsluskjól frá því að úrræðið kom til framkvæmdar og af þeim rekstraraðilum sem hafa nýtt eitthvert ofangreindra úrræða hafa 11 óskað eftir gjaldþrotaskiptum.
Rúmlega 65% viðtakenda hlutabóta búsettir á höfuðborgarsvæðinu
Heildarútgjöld vegna greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli (hlutabóta) námu tæplega 24,5 milljörðum króna á viðmiðunartímabilinu, þ.e. mars-desember og voru viðtakendur 37.017 talsins á tímabilinu. Rúmlega 65% þeirra sem hafa fengið hlutabætur eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og um 10% á Suðurnesjum. Um 42% viðtakenda eru á aldrinum 25-39, og um 37% á aldrinum 40-59. Um 56% viðtakenda hlutabóta eru karlar og 44% konur. Af þeim sem hafa fengið greiddar hlutabætur störfuðu um 37% í einkennandi greinum ferðaþjónustu.
* Fyrirliggjandi gögn um frestun skattgreiðslna ná til og með nóvembermánuði en desembermánuður liggur ekki fyrir.
Lýsigögn
Gagnaveitendur eru Skatturinn, Seðlabanki Íslands, Vinnumálastofnun og Dómstólasýslan ásamt fyrirtækja- og staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands. Atvinnugreinaflokkun er skv. ÍSAT2008 og byggir á fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands til hagtölugerðar. Atvinnugrein rekstraraðila tekur mið af aðalatvinnugrein viðkomandi og stærðarflokkun þeirra tekur mið af meðalfjölda starfsmanna yfir það tímabil sem viðkomandi rekstraraðili nýtur stuðningsaðgerða. Þær niðurstöður sem hér liggja fyrir eru settar fram með þeim fyrirvara að gögn frá einstökum skilaaðilum geta verið ófullnægjandi og því geti niðurstöður breyst innan tímabils með nýrri gagnasendingu.
Frestun skattgreiðslna
Úrræðið er ætlað atvinnurekendum sem stóðu frammi fyrir verulegum rekstrarörðugleikum á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiddi af almennum samdrætti innan lands og á heimsvísu. Er þeim heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum og tryggingagjaldi sem voru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis er 15. janúar 2021. Þá hefur einnig verið heimilað að fresta greiðslu á allt að tveimur gjalddögum frá og með 1. janúar til og með 1. desember 2021. Allar fjárhæðir sem tengjast frestun skattgreiðslna miðast við álagningartímabil en helmingi allra álagðra gjalda sem greiningin nær til var sjálfkrafa frestað fyrir álagningartímabilið febrúar 2020.
Greiðsla launa á uppsagnarfresti
Úrræðið var ætlað atvinnurekendum sem sagt höfðu launamönnum upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri sínum og orsakir þess verða raktar beint eða óbeint til ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna kórónuveirufaraldursins sem hófst hér á landi í febrúar 2020. Nær stuðningurinn til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020.
Lokunarstyrkir
Úrræðið er ætlað minni rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna kórónuveirufraldursins og aðgerða stjórnvalda til þess að verjast útbreiðslu hans. Skilyrði fyrir veitingu stuðnings í formi lokunarstyrkja er að rekstraraðila hafi verið gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi vegna reglna um sóttvarnir. Úrræðið gilti í upphafi eingöngu um tímabilið frá 23. mars til 3. maí en þeir rekstraraðilar sem gert var að stöðva starfsemi sína í sóttvarnaskyni lengur en til 4. maí 2020, þ.e. annars vegar sundlaugar sem máttu hefja starfsemi að nýju 18. maí 2020 og hins vegar skemmtistaðir, krár, spilasalir og líkamsræktarstöðvar sem máttu hefja starfsemi að nýju 25. maí 2020, geta sótt um viðbótarlokunarstyrki. Umsóknarfrestur um fyrstu lokunarstyrkina var til 1. september en umsóknarfrestur um viðbótarlokunarstyrki var til 1. október. Þá var opnað fyrir þriðju lokunarstyrkina frá og með 18. september fyrir rekstraraðila sem þurftu að loka á tímabilinu 18. september til 17. nóvember 2020. Ekki var hægt að greina á gögnunum vegna hvaða viðmiðunartímabils fyrstu tveir styrkirnir voru veittir, þ.e. hvort þeir tilheyrðu tímabilinu fyrir eða eftir 4. maí. Allar færslur vegna lokunarstyrkja fyrir tímabilið fyrir 25. maí eru því flokkaðar í apríl og allar færslur fyrir tímabilið eftir 18. september flokkaðar í nóvember.
Stuðningslán
Úrræðið er ætlað minni rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hans. Ríkissjóður ábyrgist lán sem veitt eru fyrir árslok 2020 og uppfylla skilyrði laga um úrræðið. Ríkissjóður ábyrgist að fullu stuðningslán að 10 milljónum króna til hvers rekstraraðila og vexti af því. Ríkissjóður ábyrgist 85% af þeirri fjárhæð stuðningsláns til tiltekins rekstraraðila sem er umfram 10 milljónir króna og vöxtum af henni. Stuðningslán getur numið allt að 10% af tekjum rekstraraðila á rekstrarárinu 2019.
Viðbótarlán
Úrræðið er ætlað stærri fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegri röskun á starfsemi sinni vegna kórónuveirufaraldursins. Í úrræðinu felst ábyrgð ríkisins á hluta af lánum sem lánastofnanir veita fyrirtækjum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Viðbótarlán verður að veita fyrir lok árs 2020 og hámarkslánstími frá útgáfu er 18 mánuðir. Lán til einstakra aðila munu geta að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði árið 2019 og launakostnaður félags verður að lágmarki að hafa verið 25% af heildarrekstrarkostnaði þess árið 2019. Lán sem nýtur ábyrgðar getur hæst numið kr. 1,2 ma.kr.
Greiðsluskjól
Úrræðið er ætlað fyrirtækjum sem eiga í verulegum rekstrarerfiðleikum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geta fyrirtækin fengið greiðsluskjól í áföngum í allt að ár. Beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar er beint til héraðsdóms og ber Dómstólasýslan ábyrgð á skráningu og varðveislu upplýsinga um þau fyrirtæki sem hafa sótt um og eftir atvikum fengið samþykkt að nýta sér úrræðið. Beiðni þurfti að berast héraðsdómi fyrir 1. janúar 2021.
Atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli
Úrræðið er ætlað launafólki og sjálfstætt starfandi einstaklingum sem hafa farið í minnkað starfshlutfall vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Laun sem greidd eru samhliða minnkuðu starfshlutfalli koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Úrræðið gildir til 31. maí 2021.
Greiðsla launa í sóttkví
Úrræðið tekur til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021. Enn fremur gildir úrræðið um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda og sem greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Umsóknir um úrræðið skulu hafa borist fyrir 31. mars 2022.