Mánudagskvöldið 7. febrúar og aðfaranótt 8. febrúar var mikið suðvestan brim við sunnan- og vestanverðan Reykjanesskaga. Meðal vindhraði á Garðskagavita um kvöldið og fram á morgun var 20-22 m/s og ölduhæð (kennialda) á Garðskagadufli fór upp í 20 m. Það þýðir að hæstu öldur voru mun hærri en það.
Síðdegis á þriðjudag bárust Hafrannsóknastofnun fréttir af því að mikið hefði rekið af fiskum upp í Stóru Sandvík á vestanverðu Reykjanesi. Á miðvikudagsmorgun fóru starfsmenn stofnunarinnar og mátu magn fisks í víkinni sem er um 1 km löng. Í ljós kom að aðallega var um tegundina litla karfa að ræða, alls um 29 þúsund fiskar á bilinu 5-23 cm. Þar er líklega um lágmarksfjölda að ræða því sandur hafði fokið yfir eitthvað af smæsta fiskinum.
Auk litla karfa fundust um 140 ljóskjöftur (8-19 cm), tvær keilur (79 og 89 cm), 115 cm þorskur, ufsi, spærlingur og marsíli. Auk fiskanna voru í fjörunni nokkrir nýlega dauðir fuglar; fimm súlur, tvær langvíur, fýll og æðarfugl.
Aðstæður voru einnig skoðaðar við Garðskagavita og þar var mikið upprót af þara og nokkrir tugir af litla karfa. Einnig fréttist af litla karfa í fjörunni í Sandgerði, við Sandhöfn norðan Hafnabergs og við Ísólfsskála við sunnanvert Reykjanesið.
Ljóst er að mikið magn af litla karfa og talsvert af ljóskjöftu hefur drepist við Reykjanesið í óveðrinu sem gekk yfir aðfaranótt þriðjudags. Einnig er líklegt að fuglarnir sem fundust í fjörunni í Stóru Sandvík hafi drepist af þess völdum.
Hægt er að fullyrða að rekinn er ekki af völdum brottkasts því þetta eru mest það smáir fiskar að þeir koma ekki í veiðarfæri fiskiskipa.
Ef orðið hefur vart við mikinn fjölda rekinna fiska í fjörum myndi Hafrannsóknastofnun gjarnan vilja fá upplýsingar um slíkt, í gegnum netfangið hafogvatn@hafogvatn.is
Litli karfi ofar og neðri tegund er ljóskjafta.