Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að Það væri greiði við Mannréttindadómstólinn ef íslensk stjórnvöld ákvæðu að áfrýja dómnum
,,Ég tek undir með forsætisráðherra að það er mikilvægt að menn rökræði þennan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér bæði meirihluta- og minnihlutaálitum, ekki hvað síst í ljósi eðlis þessa dómstóls og svo þess sem kemur fram, bæði í dómnum og svo í minnihlutaálitinu.
Ef við byrjum á niðurstöðu dómsins eða meirihlutaálitinu, kemur fram að menn líta töluvert, að því er virðist, til pólitískrar umræðu um málið á Íslandi og virðast, eins og minni hlutinn bendir á, hafa orðið fyrir áhrifum af hamaganginum, eins og það er orðað, í íslenskum stjórnmálum vegna málsins.
https://www.facebook.com/midflokkur/videos/783639115339987/
Í framhaldi af því lýsir minni hlutinn því að í þessu felist ýmis áhyggjuefni, m.a. að með því sé verið að búa til varasöm fordæmi og raunar að opna þar sem í minnihlutaálitinu er kallað pandórubox.
Það byggist reyndar ekki á þessari pólitísku hlið heldur á því að meiri hlutinn sé að taka afstöðu í málinu, ekki út frá því að viðkomandi hafi ekki notið sanngirni, sanngjarnra réttarhalda, heldur einhvers allt annars, einhverjum tæknilegum atriðum sem áttu sér stað löngu áður en réttarhöldin hófust. Og minni hlutinn bendir réttilega á að ef Evrópudómstóllinn ætli að breyta nálgun sinni á mál á þennan hátt, að jafnvel sá sem telst hafa notið sanngjarnrar málsmeðferðar geti haft sigur fyrir dómnum út á eitthvað fyrra atriði, opni það á, að því er virðist, nánast endalausa möguleika á að taka upp mál og ætlast til þess að Evrópudómstóllinn breyti niðurstöðu dómstóla þjóðríkjanna.
Þetta eru því stórar grundvallarspurningar, annars vegar um það hvort dómurinn sé í þessu tilviki farinn að dæma öðruvísi, farinn að skilgreina hlutverk sitt í rauninni upp á nýtt, hvað varðar túlkun laganna og umfang þess sem þessum dómstóli sé ætlaði að taka fyrir, og hins vegar hvort hann verði fyrir áhrifum af pólitískri umræðu.
Hvort tveggja er verulegt áhyggjuefni og gefur okkur Íslendingum tilefni til að ræða þetta mál hér innan lands en einnig í alþjóðasamstarfi, því að það hlýtur að vera okkur, eins og minni hlutanum, áhyggjuefni ef þróunin er raunverulega sú með þennan dómstól. Því að hlutverk hans er auðvitað að tryggja mannréttindi á grundvelli laganna.
Þess vegna verður ekki fram hjá því litið að minni hlutinn er með áliti sínu að leitast við að tryggja mannréttindi með því að vísa til laganna og þess að lögin eigi umfram allt að verja réttindi fólks en ekki það sem telst heppilegast eða falla best að tíðaranda hvers tíma.
Svoleiðis að þegar menn gagnrýna álit minni hlutans verður ekki fram hjá því litið að það álit er sett fram af einlægum vilja til að verja þann grundvöll sem Mannréttindadómstóllinn byggir á, og þar með mannréttindin.
Í því verkefni sem fram undan er við úrlausn þessara mála hér á landi má ekki gleyma að ræða þessi mál líka í alþjóðasamstarfi og e.t.v. ekki hvað síst við þau lönd sem lýst hafa áhyggjum af þróun þessa dómstóls. Menn hljóta að vilja ná saman um að hann starfi í samræmi við það sem lagt var upp með þegar hann var stofnaður.
Það væri því að mínu mati greiði við Mannréttindadómstólinn ef íslensk stjórnvöld ákvæðu að áfrýja málinu, sem þau hljóta að gera. Mér hefur heyrst það á ráðherrum. En þó veltir maður því fyrir sér, sérstaklega með hliðsjón af áliti meiri hlutans og minni hlutans á fyrri stigum, hvort það að fyrrverandi dómsmálaráðherra skuli hafa verið látin víkja, eða vikið úr ríkisstjórninni, geti veikt stöðu Íslands í þeim framhaldsréttarhöldum, ef af yrði.
Ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér er að ef raunin er sú að menn líti til pólitískrar umræðu á Íslandi og byggja að einhverju leyti afstöðu sína á henni hlýtur það að fela í sér óheppileg skilaboð af hálfu Íslands, með tilliti til afstöðu íslenska ríkisins, að dómsmálaráðherra skuli hafa þurft að víkja, segja af sér embætti, vegna fyrri niðurstöðu Mannréttindadómstólsins.
Það er því dálítið áhyggjuefni í ljósi þessa að menn vísi í svo ríkum mæli til pólitískrar þróunar og umræðu á Íslandi, að í framhaldinu sé hægt að vísa til þess að fyrri niðurstaða hafi verið það skýr að dómsmálaráðherra hafi verið vikið úr ríkisstjórn eða vikið þaðan á sínum forsendum.
Engu að síður tek ég undir hvatningu forsætisráðherra um að þingið vinni þetta mál af skynsemi og með rökræðu án þess að falla í hefðbundnar pólitískar skotgrafir stjórnar og stjórnarandstöðu. Við í Miðflokknum munum leggja okkar af mörkum í þeim efnum.“