Að venju fóru margir of geyst þegar skemmtanahald um helgina var annars vegar, en lögreglan þurfti að koma allmörgum til aðstoðar. Hinir sömu voru í annarlegu ástandi af ýmsum ástæðum, m.a. vegna áfengisneyslu og þurftu einhverjir á aðstoð að halda vegna þessa oftar en einu sinni.
Þá voru átján ökumenn teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu, en til viðbótar var einnig stöðvuð för tveggja annarra ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.
Allnokkrir ökumenn voru enn fremur staðnir að hraðakstri, en hinir sömu eiga sekt yfir höfði sér. M.a. einn sem ók um Reykjanesbraut í Hafnarfirði á 136 km hraða. Hans bíður sekt upp á 180 þúsund kr. og svipting ökuréttinda í einn mánuð. Þrettán umferðarslys og óhöpp voru jafnframt skráð hjá lögreglu á sama tímabili, sem auk þess fjarlægði skráningarnúmer af mörgum bifreiðum sem voru ýmist ótryggðar og/eða óskoðaðar.
Um helgina var tilkynnt um níu líkamsárásir, þar af tvær alvarlegar, og fimm sinnum var lögreglan kölluð til vegna heimilisofbeldis. Talsvert var líka um innbrot, m.a. í þrjár bifreiðar. Loks má nefna að nokkrum sinnum var tilkynnt um búðaþjófnaði í umdæminu.