Ríkissaksóknari hefur fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að að hætta rannsókn á slysasleppingum eldislax úr kví Arctic Fish í Patreksfirði í ágúst í fyrra. Ríkisútvarpið fjallaði ítarlega um málið.
Rannsókn hófst eftir kæru Matvælastofnunar 13. september. Framkvæmdastjóra Arctic Fish var þá gefin réttarstaða sakbornings. Rannsókninni var hætt 19. desember. Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, sagði þá ekki grundvöll til að halda henni áfram. Gögn málsins bæru ekki með sér að umbúnaði við kvína hafi verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis Arctic Fish.
Ákvörðun lögreglustjórans um að fella niður rannsóknina var kærð í janúar og voru kærendur þrjátíu, þar á meðal Matvælastofnun og veiðifélög. Nú hefur ríkissaksóknari fellt ákvörðunina úr gildi og þar með gert lögreglustjóra að halda rannsókn áfram.
Í úrskurði ríkissaksóknara segir að það sé mat embættisins að umbúnaði hafi verið áfátt og ekki hafi verið farið eftir verklagsreglum eða ákvæðum reglugerðar og laga sem um starfsemina gildi. Ekkert liggi fyrir um að kærði eða aðrir sem refsiábyrgð beri hafi aðhafst nokkuð til að tryggja að unnið væri í samræmi við reglur. Því sé ekki fallist á að rétt hafi verið að hætta rannsókn.