Ferðamenn streyma til landsins sem er gott mál, en ég efast um að margir þeirra komi aftur vegna þess verðlags sem er víða hjá fyrirtækjum á landinu. Ég átti ekki til orð á dögunum þegar ég hugðist fara í sundlaug sem er ekki svo langt frá Reykjavík. Við eigum jú nóg af heitu og ódýru vatni og ferðamenn vita það vel eins og við sem hér búum.
Það kom mér því virkilega á óvart að sundmiði fyrir einn gæti kostað 3.800 krónur eða 10.600 krónur fyrir par með tvö börn á aldrinum 10-16 ára. Getur þetta virkilega talist eðlilegt?
Ég greiddi síðast 1.200 krónur fyrir stakan miða í sund nú í júní á fallegum stað í nýrri laug úti á landi með góðu útsýni, en þar sem ég bý borgaði ég að mig minnir 7.000 krónur fyrir 10 skipta kort. Í víðara samhengi er verðið á einni sundferð fyrir fjölskyldu svipað og flugferð fyrir einn til Evrópu.
Í vikunni frétti ég af því í gegnum mannn sem vinnur í ferðaþjónustu að mikið af ferðamönnum hafi afbókað ferðir hjá sér, til Íslands, út af almennu okri hér á landi og er í raun ekki hissa á því.
Það er nóg að labba inn á næstu bensínstöð þar sem lítið súkkulaðistykki kostar um 600 krónur eins og ég sá í nýlegri ferð minni, (180 krónur í Bónus) og gos á 400 krónur sem kostar í Bónus um 100 krónur.
Við verðum að átta okkur á að ferðamenn munu tala um okrið hér á landi þegar það kemur heim til sín og ekki er það til að auka komur ferðamanna hingað.
Er eðlilegt að sundferð á Íslandi kostar eins og flug til útlanda? Erum við kannski að falla á græðginni?