Utanríkisráðuneytið hefur gert samninga við níu íslensk félagasamtök um styrki vegna fjórtán þróunarsamvinnuverkefna, samtals að fjárhæð 77 milljónir. Tvenn samtök fá að þessu sinni úthlutað í fyrsta sinn, Íslenska barnahjálpin og Björt Sýn, en bæði samtökin starfa í þágu barna í Kenía. Alls bárust sextán umsóknir frá tíu félagasamtökum.
Eftirfarandi félagasamtök fengu styrki til þróunarsamvinnuverkefna:
ABC barnahjálp hlýtur þrjá styrki til þróunarsamvinnuverkefna, tvö verkefnanna eru í Úganda og eitt í Pakistan. Verkefnin í Úganda fela í sér stuðning við uppbyggingu á malaríudeild við heilsugæslu og byggingu á heimavist við skóla í Rockoko í Pader héraði. ABC barnahjálp hefur unnið að uppbyggingu á svæðinu síðan 2007, einkum á sviði menntunar og heilbrigðismála. Í verkefni þeirra í Pakistan er lögð áhersla á stuðning við klæðskeranám fyrir konur sem hafa ekki hlotið formlega menntun.
Aurora velgerðarsjóður fær tvo styrki til þróunarsamvinnuverkefna í Síerra Leóne, annars vegar vegna verkefnis um valdeflingu ungra frumkvöðla þar sem ungu fólki er boðin þjálfun í nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi og rekstri fyrirtækja. Stefnt er að því að minnsta kosti 250 ungir og upprennandi frumkvöðlar muni njóta góðs af hinum ýmsu námskeiðum. Hins vegar hljóta samtökin áframhaldandi styrk vegna leirkeramik verkstæðisins Lettie Stuart Pottery en verkefnið veitir ungu fólki í Síerra Leóne tæknikunnáttu í gegnum nám í leirkeramikgerð. Með verkefninu leitast samtökin eftir að gera ungu fólki kleift að afla sér atvinnu í þessari skapandi grein, en talið er að 60 prósents ungs fólks í landinu sé án atvinnu.
Björt Sýn fær nýliðastyrk sem snýr að uppbyggingu íbúðarhúss fyrir börn á munaðarleysingjaheimilinu Takk Kenya í Homa Bay sýslu í Kenía. Samtökin hafa stutt við heimilið um nokkurra ára skeið en þau reka einnig skóla fyrir yngstu deildir á heimilinu. Íbúðarhúsið mun veita um 60 börnum bætta aðstöðu.
CLF á Íslandi fær styrk til eins árs til að bæta aðgengi nemenda í CLF skólanum í Úganda að stafrænni tækni, kennslu og eflingu í að nýta stafræna tækni í námi og starfi. Áhersla verður á stúlkur og nemendur með fatlanir. Aukin færni í stafrænni tækni hefur valdeflandi áhrif og kemur til með að hjálpa nemendum að verða samkeppnishæfari á atvinnumarkaði eftir að námi lýkur.
Íslenska Barnahjálpin hlýtur nýliðastyrk en verkefni samtakanna miðar að því að bæta húsnæði og klára framkvæmdir við skólahúsnæði samtakanna í fátækrahverfinu Kariobangi North í Naíróbí í Kenía. Með verkefninu vilja samtökin bæta aðbúnað, byggja upp og stuðla að betri námsaðstöðu og öryggi fyrir nemendur í skólanum, en markhópurinn eru nemendur í viðkvæmri stöðu á aldrinum þriggja til átján ára.
Landssamtökin Þroskahjálp hljóta áframhaldandi styrk til langtíma þróunarsamvinnu-verkefnis sem ætlað er að efla stuðning og þjónustu við fötluð börn í Mangochi héraði í Malaví, sem er annað tveggja samstarfshéraða Íslands í landinu. Verkefnið er fjölþætt og samastendur m.a. af stuðningi, fræðslu og ráðgjöf við inngildingu í leik- og grunnskólum í héraðinu, samstarfi við héraðsyfirvöld um stuðning við fötluð börn á svæðinu sem og stuðningi við hagsmunasamtök mæðra til að efla viðhorf og auka fræðslu um réttindi og skyldur gagnvart fötluðu fólki.
Samband Íslenskra Kristniboðsfélaga hlýtur styrk til að bæta aðgengi íbúa í Pókót héraði í Kenía að hreinu vatni með því að bora eftir vatni og setja upp vatnsdælu sem gengur fyrir sólarorku. Með verkefninu leitast samtökin eftir að veita íbúum svæðisins stöðugan aðgang að hreinu vatni og stuðla þannig að bættum lífsskilyrðum, en ekkert aðgengi er að hreinu vatni á svæðinu.
Vinir Kenía fá styrk til að framkvæma verkefni sem snýr að vatnsöflun fyrir skóla í Tansaníu. Markmiðið er að tryggja um 1800 nemendum varanlegan aðgang að hreinu vatni í nágrenni skólans en ekkert aðgengi er að vatni við skólann. Við núverandi aðstæður er neysluvatn á svæðinu að mestu sótt í Viktoríuvatn, sem er í um átta kílómetra fjarlægð frá skólanum sem bitnar á nemendum sem þurfa að sækja vatn á skólatíma.
Kynningar- og fræðsluverkefni
Af styrkjum til þróunarsamvinnuverkefna var fimm milljónum króna varið til kynningar- og fræðsluverkefna innanlands, en styrkjunum er ætlað að efla þátttöku og þekkingu almennings á alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Eftirfarandi styrkir voru samþykkir:
ABC Barnahjálp hlýtur styrk til að gefa út 35 ára afmælisblað en í blaðinu verður lögð áhersla á jákvæð áhrif íslenskra heimila á menntun barna í efnaminni ríkjum.
Landssamtökin Þroskahjálp hljóta styrk til að búa til kynningarefni um þróunarsamvinnuverkefni samtakanna í Malaví sem leggur áherslu á stuðning og aðstæður fatlaðra barna og fólks í Mangochi héraði.
Styrktarfélagið Broskarlar fær stuðning til að vinna að nýrri heimasíðu samtakanna. Meginmarkmið verkefnisins er að gera störf samtakanna sýnilegri almenningi en styrktarfélagið vinnur að þróunarsamvinnuverkefninu „Menntun í ferðatösku“ í Kenía sem er stutt af utanríkisráðuneytinu.
Styrkir fyrir verkefni á sviði þróunarsamvinnu eru auglýstir árlega. Næsta úthlutun er áætluð í byrjun árs 2024.