Eftirlitið í tengslum við verkefnið „Heimagistingarvakt“ hefur ýtt undir rétt skattskil einstaklinga og aukið fjölda skráninga vegna heimagistingar á hverju ári. Menningar- og viðskiptaráðherra kynnti árangurinn á ríkisstjórnarfundi.
Þrátt fyrir að umtalsverður fjöldi einstaklinga selji enn gistingu án skráningar eða tilskilins leyfis,er ljóst að eftirlit Heimagistingarvaktar hefur skilað miklum árangri frá árinu 2017, þegar áætlað var að um 80% af seldri gistingu færi fram án skráningar eða tilskilins leyfis.
„Við fögnum því að ferðaþjónustan hefur náð sér aftur á strik eftir heimsfaraldur. Það hefur gengið vonum framar að fá ferðamenn aftur til landsins. Heimagistingarvaktin hefur síðustu misseri stuðlað að traustu og skilvirku eftirliti með heimagistingu og aukið yfirsýn stjórnvalda yfir raunverulegt umfang hennar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur eftirlit með skráningar- og rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi á landsvísu. Starfsfólk Heimagistingarvaktarinnar framkvæmir vettvangsrannsóknir í kjölfar ábendinga frá almenningi eða upplýsinga sem fram koma í frumkvæðiseftirliti. Í hópnum starfa tveir lögfræðingar sem halda utan um stjórnsýslumeðferð og ákvarðanir um stjórnvaldssektir.
Frá árinu 2017 hefur menningar- og viðskiptaráðuneytið, áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármagnað eftirlitið með árlegu 50-64 m.kr. fjárframlagi. Á almanaksárinu 2023 nema álagðar stjórnvaldssektir 31.738.520 kr, þar af 9.083.900 kr. vegna heimagistingar og 22.654.620 kr. vegna rekstrarleyfiskyldrar gististarfsemi án tilskilins leyfis.Fyrirhugaðar stjórnvaldssektir á almanaksárinu 2023 nema 9.562.200 kr, allt vegna rekstrarleyfisskyldrar gististarfsemi án tilskilins leyfis.
Það sem af er almanaksárinu 2023 eru skráðar heimagistingar 2613. Þann 6. júlí síðastliðinn voru óafgreiddar umsóknir um skráningu heimagistingar 60 talsins. Synjunarhlutfall á þessum umsóknum er almennt í kringum fjögur prósent. Skráðar heimagistingar eru því orðnar fleiri en fyrir heimsfaraldur en COVID-19 barst til Íslands í lok febrúar árið 2020. Til samanburðar voru skráðar heimagistingar 2180 árið 2022. Í heimsfaraldrinum voru skráðar heimagistingar 1082 árið 2021 og 1243 árið 2020. Árið 2019 voru skráðar heimagistingar 2241.
Skráning heimagistingar fer fram með rafrænum hætti á www.heimagisting.is og er þar bæði hægt að nýskrá og endurnýja heimagistingar.