Árleg skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslenskt efnahagslíf hefur verið birt. Sjóðurinn gerir reglubundnar úttektir á efnahagslífi aðildarlanda sinna á grundvelli 4. greinar stofnsáttmálans (e. Article IV Consultation). Sendinefnd frá sjóðnum var hér á landi í maí síðastliðnum til viðræðna við íslensk stjórnvöld og aðra hagaðila.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að sjóðurinn telji að styrk og samræmd aðhaldsstefna stjórnvalda hafi dregið úr ójafnvægi innanlands og gagnvart útlöndum. Aðhald bæði peningamála og opinberra fjármála er talið hæfilegt og nú er útlit fyrir að dragi úr verðbólgu og hagvexti til skemmri tíma. Heilt á litið eru horfur góðar. Þegar hægja tekur á umsvifum í hagkerfinu ætti efnahagsstefnan að tryggja mjúka lendingu, ná verðbólgu niður í markmið og draga úr halla í ríkisfjármálum til að auka viðnámsþrótt gegn áföllum í framtíðinni.
Áframhaldandi árangur við innleiðingu helstu ráðlegginga sjóðsins úr úttekt á fjármálakerfinu sem lauk 2023 (FSAP) er mikilvægur til að styðja við fjármálastöðugleika. Kerfisumbætur ættu að miða að því að hlúa að nýsköpun og viðhalda árangri í að auka fjölbreytni í íslensku efnahagslífi ásamt því að hraða grænni umbreytingu.
Hagvaxtarhorfur til meðallangs tíma eru bjartar og sjóðurinn spáir meiri hagvexti að jafnaði hér en í öðrum þróuðum ríkjum. Sjóðurinn telur að aukin fjölbreytni í íslensku efnahagslífi og stuðningur stjórnvalda við nýsköpun, sem þegar er farinn að skila árangri, styðji áfram við framleiðnivöxt og aukinn viðnámsþrótt hagkerfisins gagnvart áföllum. Nýgerðir kjarasamningar eru stórt skref í rétta átt á íslenskum vinnumarkaði. Samningarnir stuðla að minni verðbólgu ásamt því varðveita samkeppnishæfni þjóðarbúsins gagnvart útlöndum.
Sjóðurinn styður áform stjórnvalda um áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum og samræmast metnaðarfull markmið stjórnvalda í fjármálaáætlun áranna 2025-29 bættu svigrúmi opinberra fjármála til að mæta framtíðaráföllum. Upptaka fjármálareglna að nýju telur sjóðurinn að muni stuðla að sjálfbærni í opinberum fjármálum og efnahagslegum stöðugleika. Þrátt fyrir framangreint telur AGS að frekari aðgerða sé þörf til að tryggja að aðhaldsstig ríkissjóðs verði áfram hæfilegt. Sjóðurinn telur t.a.m. rétt að snúa við raunaukningu útgjalda frá fjármálaáætlun 2023-2027 sem sumpart er komin til vegna þess að faraldurstengd útgjöld hafa ekki fengið að renna sitt skeið. Þá leggur sjóðurinn áherslu á að ríkissjóður spari allar tekjur sem eru umfram áætlanir.
Skýrslan á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Svæðissíða Íslands á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins