Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að það gustaði hressilega í þessari viku þegar sjónarmið tókust á um hvort undirrita ætti sameiginlega yfirlýsingu með Icelandair og Samtökum atvinnulífsins þar sem kom fram viðurkenning á að framganga þeirra gagnvart flugfreyjum í sumar hafi ekki verið samkvæmt reglum vinnumarkaðarins. Ég tel slíka viðurkenningu mikilvæga, ekki eingöngu fyrir Flugfreyjufélag Íslands, heldur fyrir allt launafólk á Íslandi í dag og til framtíðar. Ég gekk til samkomulagsins í umboði miðstjórnar ASÍ en að undangenginni ítarlegri umræðu. Í henni var mikill meirihluti hlynntur því að fá þessa viðurkenningu fram í gegnum samkomulag fremur en að láta reyna á mál fyrir dómstólum, enda stýrum við atburðarás í samningum frekar en fyrir dómi.
Önnur mál féllu í skuggann af þessu máli en það ber líka að minna á að kjaratölfræðinefnd skilaði sinni fyrstu skýrslu um samningalotuna 2019-2020, árangur samningana, umgjörð þeirra og launaþróun. Það er mikið fagnaðarefni að loksins skuli vera tekin saman gögn sem nýtast vel til að meta árangur samninga og geta verið grundvöllur í kjarasamningsviðræðum. Upplýsingarnar eru líka gagnlegar fyrir fólk sem kemur nýtt að málum og er að fóta sig í frumskógi lögmála vinnumarkaðarins. Ég hvet áhugasama að kynna sér skýrsluna á ktn.is.
Auk hefðbundins miðstjórnarfundar í vikunni var boðað til aukafundar vegna Icelandair málsins. Á miðvikudagskvöld naut ég þess svo að vera gestur á fundi Einingar-Iðju á Akureyri þar sem farið var yfir samningana og forsendur þeirra og spjallað um það sem brennur á félagsmönnum. Því miður þarf að færa fundi nú umvörpum í netheima sem er alltaf verra, sérstaklega þegar þarf að ræða stór mál. Förum vel með okkur á viðsjárverðum tímum og gætum að sóttvörnum!
Góða helgi, Drífa