Héraðssaksóknara hefur tekist að endurheimta um það bil 1.500 smáskilaboð sem fóru á milli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara.
Frá þessu greinir Heimildin í dag. Í umfjölluninni er meðal annars vitnað til orða sem Þorsteinn lét falla í yfirheyrslum hjá saksóknara sumarið 2020. „Ég hafi ekkert með manninn að gera,“ sagði forstjórinn. Hann sagði samskipti sín við Jóhannes hafa verið takmörkuð.
Jóhannes starfaði fyrir Samherja í Namibíu og sagðist meðal annars hafa greitt mútur fyrir hönd Samherja en aldrei án þess að hafa fengið „grænt ljós“ frá Þorsteini. Samkvæmt heimildum Heimildarinnar tók tölva Jóhannesar afrit af símanum hans um eða eftir að Jóhannes lét af störfum hjá Samherja. Heimildin segir að skilaboðin sýni allt aðra mynd af samskiptum Jóhannesar og Þorsteins en forsvarsmenn Samherja hafa haldið fram.
„Samskiptin í raun, í raun voru takmörkuð en hann var haldinn þráhyggju varðandi að senda alveg endalaus email, sem þá í raun voru lítið lesin,“ er Þorsteinn sagður hafa sagt við yfirheyrslur hjá héraðssaksóknara.
Heimildin segir mörg smáskilaboðanna ganga út á að skipuleggja myndsíma fundi en samkvæmt lýsingum sem Heimildin hefur fengið á fundunum var Þorsteinn fámáll en kinkaði kolli til samþykkis. Samkvæmt Heimildinni hafa einnig fundist myndir í tölvunni sem sýna Þorstein og Jóhannes saman. Jafnframt kemur fram að Þorsteinn Már hafi nýlega verið yfirheyrður um smáskilaboðin.