,,Reynir að lifa af sextán þúsund krónum á mánuði“ er fyrirsögn í Fréttablaðinu um helgina. Mér er nóg boðið. Hversu mikið er hægt að taka af fólki? Ég starfaði í 30 ár sem fjölmiðlakona og sum viðtöl lifa meira með mér en önnur.
Eitt sinn fór ég í Mosfellsbæinn að taka viðtal fyrir sjónvarpsþáttinn minn ,,Fólk með Sirrý“ við Steinu, 27 ára lífsglaða konu, sem ræktaði svo sérstaka og skemmtilega hunda.
Heimsóknin var ógleymanleg því heima hjá henni var svo mikið líf og fjör. Steinunn Jakobsdóttir var fjölskyldukona með tvö myndarleg börn sem voru að teikna og lita í stofunni innan um hunda, ketti, fugla og úti í garði voru lögregluhundar sem voru í þjálfun hjá sambýlismanni Steinu. Hún vann úti og rak líka litla verslun með gæludýrafóður í Mosfellsbæ. Það var svo skemmtilegt að koma inn á þetta líflega heimili.
Næsta sem ég frétti af Steinu var að hún fékk heilablóðfall 27 ára og missti við það næstum allt. Hún lamaðist og notar hjólastól, er með heilaskaða og sér illa. Við tók endurhæfing í nokkur ár og hún gat ekki alið upp börnin sín eða haldið heimili. Hún missti næstum allt. Það biður enginn um að fá heilablóðfall og verða öryrki til lífstíðar.
Steina er í þeirri stöðu núna 18 árum eftir áfallið að hún er að missa tækifærið til sjálfstæðrar búsetu. Húsaleigubætur hættu að berast um áramót (út af einhverjum breytingum í kerfinu) og hún á 16 þúsund krónur eftir þegar reikningar hafa verið greiddir.
Matur er munaðarvara. Og sjúkraþjálfun er lúxus. Steina hefur sýnt mikinn dugnað að búa ein í íbúð í Mosfellsbæ í mörg ár. Það mun kosta samfélagið miklu meira ef hún missir íbúðina. Hvar á hún þá að búa? Og hvað mun það kosta Mosfellsbæ. ,,Computer says no“ einhversstaðar í kerfinu.
En ég skora á bæjaryfirvöld og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að finna smugu, opna nýjar leiðir og laga þetta. Kerfi eru búin til af fólki. KOMA SVO. Hversu mikið er hægt að leggja á eina konu? Móðir sem fær heilablóðfall og lamast 27 ára á ekki að þurfa að biðja um mat og missa heimilið sitt á miðjum aldri. Hversu mikið á ein manneskja að missa?
Helga Möller og aðrir í stjórnmálum í Mosó er ekki hægt að ganga í málið? Nánar má lesa um málið í Fréttablaði helgarinnar. Fjölmiðlar ættu líka að taka málið áfram, fylgja því eftir og sjá hver tekur á málum. Heiðar Örn Sigurfinnsson Sigmundur Ernir Rúnarsson Björk Eiðsdóttir Linda H. Blöndal Arnar Björnsson Hrafnhildur Halldórsdóttir. Mér kemur þetta í raun ekki við en sumir viðmælendur hafa meiri áhrif á mann en aðrir og Steina á betra samfélag skilið. – Fyrst birt í júní 2022.