Skv. frétt Fréttablaðsins í dag, þá neitar Jón Baldvin Hannibalsson öllum ásökunum um kynferðilsegt áreiti og ofbeldi. Hann segir m.a. þessar sögur vera leikrit og eigi það sameiginlegt ,,að vera ýmist hreinn uppspuni eða þvílík skrumskæling á veruleikanum, að sannleikurinn er óþekkjanlegur.“ Hann viðurkennir að hann beri ábyrgð á bréfaskriftum til Guðrúnar Harðardóttur en vísar öllum öðrum ásökunum á bug í yfirlýsingu sinni.
Þá talar hann um í yfirlýsingunni að söguberar séu ýmist í nánum fjölskyldutengslum við sig og Bryndísi eða nánir vinir Aldísar Schram dóttur sinnar. Hann er ósáttur við alla opinbera umfjöllun um málið sem hann kallar persónuníð ,,á svokölluðum samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum“. Jafnframt harmar hann þann ,,pólitíska skæting“ sem að hann vill meina að hafi komið frá Sambandi sjálfstæðiskvenna og af fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar sem hann segir að þau virði ekki svars.
Þá segir hann varðandi nauðungarvistun Aldísar á geðdeild, að hann sem forráðamaður hennar þá, hafi lögum skv. orðið að undirrita nauðungarvistun hennar á geðdeild, því að það hafi verið lagaleg skylda á þessum árum að slík undirritun lægi fyrir. „Eftir að hafa oftar en einu sinni orðið við ákalli geðlækna um nauðungarvistun elstu dóttur okkar á geðdeild, snerist vinarþel og ástúð dóttur til föður að lokum í hatur, sem engu eirir, eins og frásagnir hennar bera vott um. Nauðungarvistun er síðasta neyðarúrræði geðlæknis.“
En Aldís hefur áður fullyrt í viðtali við RÚV, að Jón Baldvin hafi getað sem ráðherra og síðar sendiherra sent bréf til dómsmálaráðuneytisins til þess að hún yrði nauðungarvistuð. Aldís var nauðungarvistuð á geðdeild á tíu ára tímabili, samtals fimm sinnum og sagði að faðir hennar hefði komið því í kring eftir að hún sagðist ætla að kæra hann vegna kynferðisofbeldis.
Jón Baldvin segist ekki ætla að fara með málin sem að um ræðir fyrir dómstóla og talar um að allar leiðir til þess að leita sátta hafi verið árangurslausar og segir málið vera fjölskylduharmleik í yfirlýsingu sinni sem má lesa í heild sinni í Fréttablaðinu.
Hér að neðan má lesa frásögn Aldísar Schram
https://www.fti.is/2019/01/17/elstu-sogurnar-eru-um-50-ara-en-thaer-nyjustu-fra-thvi-i-fyrra/