„Án vinnu okkar er ekki hægt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi, án vinnu okkar hættir velferðarkerfið samstundis að starfa, án vinnu okkar hætta eigendur atvinnutækjanna að græða. Án vinnu okkar er enginn hagvöxtur. Án vinnu okkar hefði verið ómögulegt að koma þjóðfélaginu upp úr þeirri djúpu og skelfilegu kreppu sem hömlu- og skeytingarleysi fjármálakerfisins, og stjórnmálastéttar sem starfaði í þágu þess, leiddi yfir Ísland. Þetta er hinn einfaldi og augljósi sannleikur.
En þrátt fyrir að þessi sannleikur hljóti að blasa við öllum sem skoða málin af sanngirni og réttsýni er kröfum okkar engu að síður mætt með óbilgirni og í sumum tilfellum forherðingu. Því miður heyrast hér háværar raddir þeirra sem láta eins og þau ein hafi rétt á að ákveða hver eiga að fá að njóta hagvaxtarins í „landi tækifæranna“, þau ein megi ákveða hvernig skipta eigi þeim gæðum sem vinna okkar býr til, að þegar kemur að efnahagsmálum sé best að vinnuaflið hafi ekkert um þau að segja.
Það er í raun hörmulegt að hlusta á þau sem svona tala því í orðum þeirra opinberast einstaklega ólýðræðisleg og afturhaldssöm afstaða til samfélagsins, afstaða sem við hljótum að hafna alfarið.
Pólitísk og efnahagsleg valdastétt í þjóðfélagi sem vill kenna sig við lýðræði og jöfn réttindi allra á ekki að komast upp með að horfa fram hjá því grundvallaratriði sem efnahagslegt réttlæti er. Ef hún gerir það opinberar hún einfaldlega eigin hræsni.
Því það er til marks um hræsni að tala um lýðræði og jafnrétti þegar fullkomlega sjálfsögðum kröfum vinnuaflsins um jafnari skiptingu gæðanna er mætt með vanstillingu og heimsendaspám, eða forneskjulegum hugmyndum um lengingu dagvinnutímans.“ Segir Sólveig Anna Jónsdóttir.
Umræða