Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) hefur skrifað undir nýjan kjarasamning við SA/Icelandair sem gildir til 30. september 2025, en samningar hafa verið lausir frá 1. janúar 2019. Nýundirritaður samningur byggir á fyrri samningi sem felldur var í atkvæðagreiðslu hjá FFÍ nýverið. Nýi samningurinn felur hins vegar m.a. í sér breytingar á tveimur umdeildum ákvæðum.
„Það hefur alltaf verið vilji FFÍ að koma til móts við Icelandair í því gjörbreytta landslagi sem blasir við á þessum markaði og það er okkur gleðiefni að um deiluefnin hafi samist. Það er von okkar að sem flestir félagsmenn FFÍ geti í framhaldi af þessu mætt til vinnu á ný og aðilar geti í sameiningu unnið að þeim stóru verkefnum sem við blasa. Jafnframt fögnum við því að samhliða undirritun kjarasamnings mun Icelandair draga til baka þær fyrirhuguðu uppsagnir sem tilkynntar voru félagsmönnum FFÍ 17. júlí 2020.“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ.
Samningurinn verður kynntur félagsmönnum FFÍ á fundi 20. júlí og verða greidd atkvæði um hann í kjölfarið. Atkvæðagreiðslunni lýkur 27. júlí nk.