Sigþór sagði það orðið sjálfsagt mál að fatlað fólk fari í nám til að elta drauma sína, en að það vanti ennþá talsvert upp á að við brúum bilið frá skóla yfir í atvinnulífið. „Maður hefur heyrt alltof margar sögur bæði úr okkar ranni, og ekki síður frá samherjum okkar innan t.d. öbí, þú klárar nám með glæsibrag, sækir um störf, um leið og þú birtist í viðtalinu, þá lætur vita af fötlunni sem hefur ekkert að gera með starfið sem þú ert að sækja um, að þá skynjar það að allar dyr lokast um leið. Og þarna er verk að vinna ennþá í samfélaginu, að átta sig á því að fötlun, hún er aldrei meiri en hindrunin sem er sett fyrir þig. Takir þú hindrunina í burtu, þá þarf fötlunin ekki að trufla neitt. Samanber bara ykkar starf, þú þarft ekki að vera sprækur á fæti eða með orustuflugmannssjón til að vera góður útvarpsmaður.“
Atvinnuþátttaka blindra og sjónskertra hefur mælst um 40%. Þetta er ívið hærra hlutfall en á Norðurlöndunum en er miklu lægra hlutfall en hjá almenningi. Í könnun um atvinnuþáttöku blindra kom í ljós að sá hópur sem er ólíklegastur til að vera á vinnumarkaði eru konur sem eru komnar yfir þrítugt. Skýringar á því liggja ekki fyrir.
Vaxandi áherslur í starfi Blindrafélagsins er aðgengi, og nú er áherslan á aðgengi að stafrænum upplýsingum, sem helst í hendur við samfélagsþróunina, upplýsingabyltinguna.
Þá er horft til aðgengis að tækjum og tólum, að þau séu til, og er þar helst að nefna að talgerfill og talgreinir verði til sem tala íslensku. En fyrst og fremst þarf að tryggja aðgengi að upplýsingum. Sífellt stærri hluti samfélagsins snýst um stafrænt aðgengi, samskipti og þjónusta hins opinbera og banka t.d. er fyrst og fremst í gegnum vefinn og er víða pottur brotinn í því að þær upplýsingar séu aðgenglegar öllum.
Blindrafélagið hefur sett fjögur mál á oddinn á afmælisárinu.
Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Evrópska vef aðgengis tilskipunin, sem kveður á um skyldu þeirra sem halda úti opinberum vefsvæðum, smáforritum og slíku til að sinna þeim sjálfsögðu mannréttindum að opinbert vefsvæði sé aðgengilegt öllum, framtíð Hljóðbókasafnsis, en rétturinn til að lesa er ekkert annað en mannréttindi og ferðafrelsi leiðsöguhunda. Allir leiðsöguhundar þurfa að fara í fjögurra vikna einangrun við komuna til landsins. Blindrafélagið telur það of langt, hafi ekki góð áhrif á hundana og hundur í einangrun er eðli málsins samkvæmt ekki í vinnu og nýtist því ekki eigandanum til leiðsagnar.
Í nýlegu áhættumati dansks sérfræðings kemur fram að mati Blindrafélagsins að hverfandi áhætta sé á því að leiðsöguhundar beri með sér sjúkdóma til landsins. Leiðsöguhundar eru undir ströngu opinberu eftirliti, eru í eigu hins opinbera, mjög vel haldið utan um þá af hálfu dýralækna, eru minna á ferðinni, ekki hlaupandi frjálsir um allt og að mati Blindrafélagsins er ekki þörf á svo langri sóttkví og í raun nánast engri. Fyrstu hugmyn dir Matvælastofnunar um breytingar á þessu er horft til að stytta sóttkví niður í 2 vikur en eftir sem áður er leiðsöguhundur ekki í vinnu þessar 2 vikur sem hann þarf að dvelja í sóttkví. Ferðamenn sem ætla að heimsækja landið, en þurfa á þjónustu leiðsöguhunds að halda, hugsa sig að sjálfsögðu tvisvar um ef leiðsöguhundurinn þeirra þarf að fara í sóttkví við komuna. Þetta er sambærilegt við ef að eftir komu frá útlöndum þyrftu allir að afhenda tölvu sína og síma við komuna til landsins, og fengju ekki fyrr en að 2 vikum liðnum, því leiðsöguhundurinn er fyrst og fremst verkfæri.
Viðtalið við Sigþór er hægt að hlusta á í heild hér.
Blindrafélagið heldur nú upp á 80. ára afmæli sitt og í tilefni af því heimsækir forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, félagið í Hamrahlíðina, og verður svo gestur þess á afmælishátið að Hótel Nordica síðdegis.
Fréttatilkynning
Stuðningur til sjálfstæðis er meginstefið í öllu starfi Blindrafélagsins og á meðal mikilvægra
hagsmunamála sem að Blindrafélagið leggur áherslu á núna á 80 ára afmæli félagsins eru:
• Innleiðing Evrópsku aðgengistilskipunarinnar á Íslandi.
• Ferðafrelsi leiðsöguhunda fyrir blinda til og frá landinu.
• Að standa vörð um Hljóðbókasafn Íslands og andmæla hugmyndum um að safið verði lagt
niður.
Á aðalfundi félagsins sem að haldinn var þann 11 maí síðastliðinn voru samþykktar ályktanir um þessi
málefni sem lesa má á vefsvæðinu www.blind.is.
Hátíðarsamkoma 19 ágúst í tilefni af 80 ára afmæli Blindrafélagsins, samtaka blindra og
sjónskertra á Íslandi.
Mánudaginn 19. ágúst verða liðin 80 ár frá stofnun Blindrafélagsins. Af því tilefni mun Blindrafélagið bjóða til
hátíðarsamkomu þann dag.
Dagskráin hefst á heimsókn forseti Íslands, Hr. Guðna Th. Jóhannessonar í Hamrahlíð 17, hús
Blindrafélagsins. Forsetinn mun kynna sér starfsemina sem fram fer í húsinu fyrir blinda og sjónskerta
einstaklinga og fjölskyldur þeirra.
Síðar um daginn, klukkan 16:00, verður efnt til hátíðarsamkomu á Hótel Hilton Nordica. Á dagskrá verða ávörp
frá forseta Íslands og formanni Blindrafélagsins Sigþóri U. Hallfreðssyni, Samfélagslampi Blindrafélagsins
verður afhentur, Félags og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason skrifar undir samstarfssamning við
Blindrafélagið um aðkomu að ráðuneytisins að leiðsöguhundaverkefninu. Nokkrir framúrskarandi tónlistamenn
meðal félagsmanna Blindrafélagsins munu sjá um tónlistarflutning á samkomunni.
Félagsmenn, bakhjarlar og velunnarar félagsins eru boðnir velkomnir á meðan að húsrúm leyfir.
Blindrafélagið mun svo verða heiðursgestur Reykjavíkurborgar á menningarnótt laugardaginn 24. ágúst og
mun standa fyrir fjölbreyttri dagskrá í Tjarnarsalnum af því tilefni.