Skjálftavirkni jókst nokkuð í kringum Sundhnúksgíga um helgina og eykst dag frá degi. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Um 110 skjálftar mældust í gær, í síðustu viku voru þeir um 60-90 á sólarhring. Flestir skjálftanna sem mælast eru undir 1,0 að stærð en um helgina mældust þó tveir skjálftar yfir 2,0 að stærð, annar þeirra sá stærsti sem mælst hefur frá síðasta gosi.
Veðurstofan segir skjálftavirknina nú líka virkninni eins og hún var dagana fyrir síðasta eldgos. Kvikuhlaup og jafnvel eldgos á Sundhnúksgígaröðinni geti því hafist hvenær sem er.
Land rís enn við Svartsengi og kvika heldur áfram að safnast í kvikuhólfið þar undir á svipuðum hraða og síðustu daga. Rúmmál kviku undir Svartsengi var orðið meira en fyrir síðasta eldgos í síðustu viku.
Umræða