Íslenskur karlmaður hefur verið í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum í eina viku vegna mjög umfangsmikillar rannsóknar sem meðal annars snýr að mansali og skipulögðu smygli á fólki. Grunur er um að fleiri tengist málinu.
Ríkisútvarpið fjallar ítarlega um málið og þar segir: ,,Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á fimmtudaginn fyrir viku kemur fram að tvær unglingsstúlkur, báðar undir átján ára aldri, hafi komið með flugi til landsins 4. júlí í fyrra. Þær hafi sagst vera komnar til landsins til að hitta föður sinn, manninn sem síðar var hnepptur í gæsluvarðhald. Maðurinn var ekki á landinu á þeim tíma. Upplýsingar um hvaðan þær komu og hvers lenskar þær sögðust vera hafa verið afmáðar úr úrskurðinum sem birtur var á vef Landsréttar í dag.
Skráður faðir þeirra í kerfum stjórnvalda
Lögregla fletti stúlkunum upp og í ljós kom að þeim hafði verið veitt dvalarleyfi sem börnum Íslendings og að maðurinn væri skráður faðir þeirra í kerfum íslenskra stjórnvalda. Þær sögðu að vinur föður þeirra væri kominn í flugstöðina að sækja þær og gáfu upp símanúmer hans. Það reyndist vera maður með ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
Stúlkurnar fóru í úrræði á vegum barnaverndar Suðurnesjabæjar og dvöldu þar í nokkra daga sem fylgdarlaus börn, þar sem maðurinn var kominn til landsins og þær fóru þá til hans.
Önnur með barni og hin HIV-smituð
Í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms er vitnað til greinargerðar lögreglu um málið, þar sem segir að lögregla hafi rökstuddan grun til að ætla að stúlkurnar búi við slæmar aðstæður.
Fyrir liggi að önnur þeirra sé barnshafandi en óvíst hver faðirinn er, og að hin stúlkan sé HIV-smituð og eigi ungan son erlendis sem hún hafi ekki aðgang að nema í gegnum manninn sem nú situr í haldi.
DNA-rannsókn sýnir fram á annað
Útlendingastofnun lét stúlkurnar og manninn undirgangast DNA-rannsókn, sem leiddi í ljós að hann er ekki faðir þeirra. Lögregla gerði húsleit á heimili hans fyrir viku þar sem fundust skjöl sem staðfestu niðurstöðu DNA-rannsóknarinnar og að maðurinn hafi vitað að hann væri ekki faðir þeirra áður en dvalarleyfi fyrir þær var gefið út á þeim grundvelli.
„Það er grunur lögreglu að varnaraðili sé vísvitandi og með skipulögðum hætti að blekkja íslensk stjórnvöld og gefa upp rangar upplýsingar í því skyni að fá dvalarleyfi fyrir aðila á fölskum forsendum og [eftir atvikum] hagnýta sér þau í mansali og hagnist á því,“ er haft eftir lögreglu í úrskurðinum. „Þá er það einnig grunur lögreglu að varnaraðili standi ekki einn að verki heldur njóti liðsinnis, samstarfs og [eftir atvikum] samvinnu annarra aðila.“
Mörg brot til rannsóknar
Lögregla rökstuddi gæsluvarðhaldskröfuna með því að rannsóknin væri „mjög umfangsmikil“. Til rannsóknar væri grunur um mansal, skjalafals, rangan framburð hjá stjórnvaldi og eftir atvikum brot á útlendingalögum „s.s. skipulagt smygl á fólki“.
Héraðsdómur og Landsréttur féllust á að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi til klukkan fjögur í dag. Fréttastofa hefur ekki getað nálgast upplýsingar um það hvort gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt eða hvort farið verði fram á það í dag.“