Ákveðið hefur verið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Mörg snjóflóð hafa fallið í dag og síðustu daga á svæðinu frá Siglufirði og inn að Dalvík. M.a. stórt snjóflóð sem féll á skíðasvæðinu á Siglufirði og skemmdi skíðaskálann þar.
Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá. Rýmingin nú er varúðarráðstöfun, þar sem að við verstu aðstæður getur hluti stórra snjóflóða farið yfir varnargarða eins og sýndi sig þegar gaf yfir varnargarða á Flateyri þegar snjóflóð féllu á þá fyrir rúmu ári síðan. Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu. Ekki er útlit fyrir að hægt verði að opna veginn í dag
Það hefur verið nokkuð stíf N-læg átt með snjókomu síðan í gærmorgun (mánudag) og talsverð úrkoma mæld á annesjum Norðanlands. Í gær féll snjóflóð yfir Ólafsfjarðarveg og lokaði honum en í dag sáust talsvert stór snjóflóð úr Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði og féll eitt þeirra fram í sjó. Búist er við stífri N- og NA átt með snjókomu og éljum fram yfir helgi.
Ekki er talin hætta í byggð sem stendur en viðvörun hefur verið gefin út fyrir hesthúsahverfi í Ólafsfirði undir Ósbrekkufjalli. Náið verður fylgst með veðri og aðstæðum næstu daga.
Súðavíkurhlíð: Snjóflóð: Óvissustigi er lýst yfir næsta sólarhringinn. Hálka eða snjóþekja er á vegum og skafrenningur víða.
Vegurinn yfir Þröskulda er lokaður vegna veðurs en bent er á að hægt er að komast um Innstrandaveg (68). Klettsháls er orðinn ófær vegna veðurs.
Ófært er á Klettshálsi vegna veðurs. Þröskuldar: Vegurinn er lokaður vegna veðurs en bent er á Innstrandaveg (68) sem hjáleið.
Vetrarfærð er í flestum landshlutum. Norðan til á landinu er víða skafrenningur með slæmu skyggni. Vegirnir um Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarveg eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Varað er við miklum kviðum á Kjalarnesi. Talsvert sandfok er austan við Lómagnúp samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.