Meirihluti borgarstjórnar vill alls ekki að málið verði skoðað með þeim hætti sem að lagt hefur verið til en samþykkti breytingartillögu við tillögu minnihlutans um að fara í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga um það að kanna reynslu af því að efla kosningaþátttöku í undanförnum kosningum. Borgarfulltrúar Miðflokks, Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokks mótmæltu breytingartillögunni harðlega og segja hana gjörbreyta upprunalegu tillögunni.
Vegna breytingartillögunnar ætlar minnihlutinn að fara þá leið að fara sjálfur með málið í sveitarstjórnarráðuneytið. „Við munum vísa þessu til sveitarstjórnarráðuneytisins að það skoði þetta mál. Það er þá okkar hlutverk þar sem meirihluti borgarstjórnar vill ekki skoða málið frekar,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í samtali við fréttastofu rúv í dag.
„Tillagan okkar var skýr. Við vildum að sveitarstjórnarráðuneytið færi ekki yfir hvernig stæði á því að borgin hefði brotið lög í aðdraganda kosninganna. Það var greinilegt að meirihlutinn vildi ekki samþykkja þessa tillögu og heldur ekki hafna henni og kom því með breytingartillögu um eitthvað allt annað mál.
„Meirihlutinn vill klárlega ekki að þetta sé skoðað frekar og er að reyna að koma sér undan því án þess að það sé sjáanlegt. Við teljum að það þurfi að fara rækilega yfir þetta mál því þetta er eina sveitarfélagið sem braut lög fyrir kosningarnar. Öll hin sveitarfélögin stóðu rétt að þessu. Þetta er stærsta sveitarfélagið og svetarfélag sér um framkvæmd kosninganna. Þess vegna er þetta enn alvarlegra.“ sagði Eyþór Arnalds í viðtalinu.