Djúp lægð myndast suðvestur af landinu og ganga skil hennar yfir landið á mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags. Lægðin sjálf kemur mjög nálægt vestanverðu landinu í kjölfarið og snemma á þriðjudagsmorgun gengur í suðvestan storm eða rok suðvestantil, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu.
Gefnar hafa verið út appelsínugular veðurviðvaranir sem taka gildi síðdegis á morgun, mánudag og gilda fram á aðfaranótt þriðjudags. Á suðvestanverðu landinu taka nýjar viðvaranir gildi snemma á þriðjudagsmorgun.
Óveðri sem er í aðsigi er í tveimur þáttum á suðvesturhluta landsins. Síðdegis á mánudag er vaxandi suðaustanátt sem nær hámarki, 20-30 m/s á mánudagskvöld með snjókomu, slyddu og rigningu. Skömmu eftir miðnætti ferð sjálf lægðarmiðjan yfir Reykjanes og áfram til norðurs, og á meðan er skamvinnt hægviðri, en mjög snemma á þriðjudagsmorgun er útlit fyrir ört vaxandi suðvestanátt, 20-28 m/s með slyddu eða rigningu en síðan éljum. Samfara vestanáttinni er spáð hárri ölduhæð og hækkaðri sjávarstöðu.
Veðuryfirlit
400 km VSV af Færeyjum er 958 mb lægð sem fer ASA og grynnist, en 500 km ANA af Hvarfi er 989 mb smálægð. A af Nýfundnalandi er ört vaxandi 992 mb lægð sem fer allhratt NA.
Veðurhorfur á landinu
Minnkandi norðaustanátt í kvöld og nótt og þurrt, en dálítil él norðaustantil á landinu. Kólnandi veður í bili. Suðaustan 8-15 m/s fyrri part dags á morgun og skúrir eða él, en bjartviðri fyrir norðan. Ört versnandi veður síðdegis. Suðaustan rok eða ofsaveður á suðurhelmingi landsins annað kvöld með talsverðri rigningu, slyddu eða snjókomu og hita 0 til 4 stig. Þá hvassviðri eða stormur norðantil með snjókomu á köflum, skafrenningi og vægu frosti.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Lægir í kvöld, léttskýjað og frystir.
Suðaustan 8-15 m/s og él í fyrramálið. Ört versnandi veður síðdegis á morgun, suðaustan 20-28 m/s annað kvöld og rigning eða snjókoma. Hiti 0 til 4 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Suðvestan og vestan 18-28 m/s og rigning eða snjókoma, en styttir upp á A-verðu landinu. Hiti 0 til 4 stig. Minnkandi suðvestanátt seinnipartinn með éljum S- og V-lands og kólnar smám saman.
Á miðvikudag:
Breytileg átt 5-13 m/s framan af degi og él á víð og dreif, en gengur í norðaustan storm á Vestfjörðum með snjókomu. Norðaustan 15-23 um kvöldið og snjókoma á N-verðu landinu, en heldur hægari og þurrt syðra. Frost 1 til 7 stig.
Á fimmtudag:
Norðan 10-18 og él, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 8 stig. Lægir seinnipartinn, styttir upp og herðir á frosti.
Á föstudag:
Gengur í suðaustan og sunnan hvassviðri eða storm með snjókomu, en síðar rigningu eða slyddu á láglendi. Hægari vindur og úrkomulítið á N- og A-landi fram eftir degi. Hlýnandi veður.
Á laugardag:
Suðvestanátt og él, en bjartviðri um landið NA-vert. Frost 0 til 5 stig.
Á sunnudag:
Útlit fyrir svipað veður áfram, en snýst í vaxandi austanátt síðdegis.