6.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

Málefni Úkraínu efst á baugi á öryggisráðstefnunni í München

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Utanríkisráðherra tók þátt í árlegri ráðstefnu um öryggismál sem fór fram í München í Þýskalandi um helgina. Á ráðstefnunni koma saman ríflega eitt þúsund þátttakendur, þar á meðal fjölmargir þjóðarleiðtogar, utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar ásamt fræðafólki og öðrum skoðanamótandi aðilum á sviði öryggis- og varnarmála.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í pallborðsumræðum um lýðræðislega framtíð í Belarús og Rússlandi á föstudaginn. Þar lagði hún áherslu á að lýðræðisleg öfl og borgaralegt samfélag njóti stuðnings lýðræðisríkja. Á laugardag tók hún þátt í umræðum um öryggismál á norðurslóðum. Þá sat ráðherra stóran hluta umræðu fundarins, en evrópskir þjóðarleiðtogar á borð við Olaf Scholz kanslara Þýskalands, Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands voru meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna og sátu fyrir svörum. Þá ávarpaði Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna einnig ráðstefnuna og svaraði fyrirspurnum.

Í tengslum við ráðstefnuna átti Þórdís Kolbrún tvíhliða fundi með Riad Malki utanríkisráðherra Palestínu, Ilia Darchiashvili utanríkisráðherra Georgíu og Donika Gërvalla-Schwarz sem gegnir embætti utanríkisráðherra og er varaforsætisráðherra Kósovó. Þessu til viðbótar átti hún óformlegan fund með Sviatlöna Tsikhanouskayu leiðtoga lýðræðisafla Belarús.

Á laugardagsmorgun tók Þórdís Kolbrún þátt í fundi kvenkyns utanríkisráðherra á ráðstefnunni og samþykkti fyrir hönd Íslands yfirlýsingu til stuðnings konum í Afganistan og þeim sem berjast fyrir frelsi í Íran.

„Þessi árlega ráðstefna er ákveðinn hápunktur í alþjóðlegri umræðu um utanríkismál, enda er hún sótt af miklum fjölda utanríkis- og varnarmálaráðherra og þjóðhöfðingja. Viðburðir sem þessir gefa því gott tækifæri til þess að setja fram sín eigin sjónarmið og hlusta á sjónarmið annarra. Hlutverk Íslands í alþjóðlegu samhengi er ætíð að tala fyrir mikilvægi alþjóðalaga, jafnrétti, mannréttindum og réttarríkinu. Í þessum efnum er hlustað á rödd Íslands enda höfum við ákveðinn trúverðugleika þegar kemur að þessum efnum,“ segir Þórdís Kolbrún. „Að þessu sinni var áherslan mjög á Úkraínu og mikil eindrægni um mikilvægi þess að Úkraínu yrði gert kleift að sigrast á ólöglegu innrásarstríði Rússlands,“ bætir hún við.

Stærstur hluti ráðstefnunnar, þar á meðal ávörp þjóðarleiðtoga, er aðgengilegur í gegnum streymi, sem hægt er að nálgast á vefsíðu ráðstefnunnar.

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Donika Gërvalla-Schwarz sem gegnir embætti utanríkisráðherra og er varaforsætisráðherra Kósovó. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Ilia Darchiashvili utanríkisráðherra Georgíu. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Riad Malki utanríkisráðherra Palestínu. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Sviatlöna Tsikhanouskayu leiðtoga lýðræðisafla Belarús. - mynd