Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, átti í dag símafund með utanríkisráðherrum hinna Norðurlandanna til að ræða aðgerðir vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Ráðherrarnir lýstu sérstakri ánægju með samkomulag sem hefur tekist milli ríkjanna um enn frekara samstarf um borgaraþjónustu til að koma þeim Norðurlandabúum til aðstoðar sem eiga á hættu að verða strandaglópar, ekki síst í fjarlægari ríkjum.
Á fundinum lýsti utanríkisráðherra, sem og Ine Marie Eriksen Søreide utanríkisráðherra Noregs, jafnframt ánægju sinni með þann stuðning sem ESB-ríkin þrjú, Danmörk, Finnland og Svíþjóð veittu í þeirri viðleitni að fá fellt úr gildi bann sem ESB hafði sett á útflutning á lækningavörum til EFTA-ríkjanna.
„Norræn samstaða er ómetanleg, ekki síst við þessar fordæmalausu aðstæður og það er gott að finna að við erum öll sammála um það,“ sagði Guðlaugur Þór. „Við erum sammála um að deila upplýsingum sem mest, enda viljum við gjarnan læra hvert af öðru og geta gripið til þeirra ráðstafana sem gefast best hverju sinni. Samstarf norrænu utanríkisráðuneytanna snertir ekki síst borgaraþjónustu og við erum sammála um að ef við vinnum náið saman getum við tryggt að sem flestir Norðurlandabúar komist leiðar sinnar.“
Guðlaugur bætti við að nú þegar séu flugsamgöngur afar takmarkaðar. Þeir Íslendingar sem hyggja á heimkomu þurfi að snúa heim strax, skrá sig í grunn borgaraþjónustunnar og hafa beint samband ef þeir verða strandaglópar. Um mánaðamótin gætu allar flugleiðir hafa lokast.
Verkefni samráðshóps um borgaraþjónustu sem Norðurlöndin hafa nú sett á laggirnar verða m.a. að efla samstarf um skráningu og upplýsingasöfnun vegna ríkisborgara Norðurlandanna fimm, sem staddir eru erlendis og komnir eru í vandræði þar sem æ fleiri ríki hafa fyrirskipað útgöngu- og ferðabann og vegna þess að verulega hefur dregið úr framboði á farþegaflugi. Þá er vilji til að deila sértækum úrræðum sem eitt eða fleiri Norðurlandanna grípur til, í samstarfi við flugfélögin, í því skyni að aðstoða borgara sína erlendis.
Borgaraþjónustan svarað yfir 2000 erindum
Borgaraþjónustan veitir Íslendingum vernd og aðstoð í neyðartilfellum erlendis og er ein af grunnstoðum utanríkisþjónustunnar. Frá og með 14.-19. mars sinntu tugir starfsmanna um tvö þúsund erindum í síma, með tölvupósti og í skilaboðum á Facebook. Þá voru sendir út reglulegir póstar til þeirra sem skráðir eru í gagnagrunn borgaraþjónustunnar sem fór í loftið 25. febrúar vegna COVID-19.
Þann 20. mars 2020 höfðu alls 9274 skráð sig í grunninn og af þeim er áætlað að a.m.k. þrjú þúsund manns séu þegar komnir til baka til Íslands.
Hægt er að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins með skilaboðum á Facebook, með tölvupósti á hjalp@utn.is eða í neyðarsíma borgaraþjónustu +354 545-0-112 sem er opinn allan sólahringinn.
Hér er hægt að skrá sig í grunn borgaraþjónustunnar.