Ásthildur Lóa Þórsdóttir barnamálaráðherra ætlar að segja af sér ráðherraembætti en sitja áfram á þingi. Hún greindi frá þessu í viðtali við fréttastofu fyrir skemmstu.
Barnamálaráðherra átti í ástarsambandi við fimmtán ára pilt og eignaðist með honum son ári síðar fyrir rúmum þremur áratugum, þegar hún sjálf var 22 ára.
Ríkisútvarpið fjallaði fyrst um málið og sagði fyrst af því. Þar segir að; ,,Ásthildur Lóa kynntist piltinum þegar hún leiddi unglingastarf í trúarsöfnuði í Kópavogi, þangað sem hann leitaði vegna erfiðra aðstæðna heimafyrir. Barnsfaðir hennar segir hana hafa tálmað sig en á sama tíma krafið sig um meðlög í átján ár.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir leiddi unglingastarf í trúarsöfnuðnum Trú og líf þegar hún kynntist piltinum. Hann var þá 15 ára. Hún var 22 ára.
Fréttastofa hafði samband við manninn, Eirík Ásmundsson, sem gaf ekki kost á viðtali en staðfesti hins vegar að þau hefðu átt í ástarsambandi, sem hafi hafist fljótlega eftir að hann leitaði í trúarsöfnuðinn. Barn kom undir fljótlega eftir kynni þeirra, þá var pilturinn nýorðinn sextán ára og Ásthildur Lóa 23 ára.
Tálmaði umgengni
Ástarsamband þeirra tveggja var ávallt leynilegt en pilturinn fékk að vera viðstaddur fæðingu sonar síns og að umgangast hann fyrsta árið. Það hafi þó gengið upp og ofan því pilturinn var staddur illa fjárhagslega, með lítið bakland og ekki með bílpróf en þau bjuggu í sitthvoru sveitarfélaginu.
Ásthildur Lóa átti fyrstu mánuðina frumkvæði að því að finna tíma fyrir feðgana til þess að hittast og lagði sig fram við það. Það breyttist þó eftir að hún kynntist eiginmanni sínum, að sögn Eiríks. Eiríkur leitaði til dómsmálaráðuneytisins og fjölskylduþjónustu kirkjunnar og fór fram á umgengni við drenginn. Fréttastofa hefur fengið gögn sem staðfesta það. Þar kemur líka fram að móðirin hafi hafnað honum um umgengni.
Eiríkur segist hafa fengið samþykktar tvær klukkustundir í mánuði með drengnum, á heimili Ásthildar Lóu og eiginmanns hennar. Það er einn sólarhringur á ári. Ásthildur Lóa krafði hann hins vegar um meðlag og maðurinn greiddi það í átján ár.“