Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin muni efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku.
Faghópur á vegum velferðarráðuneytisins með fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, Vinnumálastofnunar, VIRK, Tryggingastofnunar ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur um nokkurt skeið unnið að því að útfæra leiðir um framkvæmd starfsgetumats og innleiðingu þess og hefur að undanförnu kynnt hagsmunaaðilum hugmyndir sínar í þeim efnum.
Hlutverk samráðshópsins sem hér um ræðir er að gera tillögur að nýju greiðslukerfi sem styður við markmið starfsgetumatsins. Nýju kerfi er ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun, þverfaglega nálgun og samfellu í framfærslu.
Formaður samráðshópsins er Guðmundur Páll Jónsson, tilnefndur af Framsóknarflokki. Aðrir nefndarmenn eru
- Steinunn Þóra Árnadóttir, tilnefnd af Vinstrihreyfingunni – grænu framboði,
- Ásmundur Friðriksson, tilnefndur af Sjálfstæðisflokki,
- Guðmundur Ingi Kristinsson, tilnefnd sameiginlega af Flokki fólksins, Miðflokknum, Pírötum, Samfylkingunni og Viðreisn,
- Hannes G. Sigurðsson, tilnefndur sameiginlega af samtökum atvinnurekenda,
- Henný Hinz, tilnefnd sameiginlega af samtökum launafólks á vinnumarkaði,
- Friðrik Sigurðsson, tilnefndur af Landssamtökunum Þroskahjálp,
- Þuríður Harpa Sigurðardóttir, tilnefnd af Öryrkjabandalagi Íslands.
Gert er ráð fyrir að sérfræðingar velferðarráðuneytisins starfi með hópnum og að hópurinn ljúki störfum með skýrslu 1. október 2018.
Umræða