Tveir af hverjum þremur báru traust til íslenskra fjölmiðla
Tveir af hverjum þremur (66,1%) sögðust frekar eða alveg sammála fullyrðingunni „almennt séð ber ég traust til íslenskra fjölmiðla“ í víðtækri spurningakönnun sem Maskína framkvæmdi fyrir fjölmiðlanefnd í febrúar og mars 2021. Eitt af verkefnum fjölmiðlanefnda í Evrópu er að taka saman áreiðanlegar upplýsingar til að fylgjast með þróun á fjölmiðlamarkaðnum og hvernig fjölmiðlanotkun almennings breytist með tímanum. Niðurstöður þessarar könnunar á miðlalæsi á Íslandi, sem framkvæmd er að norskri fyrirmynd, verða birtar í nokkrum hlutum. Í þessum fyrsta hluta er fjallað um miðla- og fréttanotkun.
Sjónvarp (65,8%), ókeypis fréttamiðlar á netinu (62,7%) og útvarp (56,8%) voru þeir miðlar sem oftast voru nefndir sem mikilvægustu fréttamiðlarnir að mati þátttakenda. Fréttamiðlar á netinu sem greitt er fyrir (26,4%), dagblöð (23,7%) og samfélagsmiðlar eins og Facebook, Twitter, Snapchat o.s.frv. (18,8%) komu þar á eftir. Sjónvarp, útvarp og dagblöð voru mikilvægastir í huga eldri aldurshópa (40 ára og eldri), ókeypis fréttamiðlar á netinu hjá hópi 18-39 ára og samfélagsmiðlar hjá yngsta aldurshópnum 15-17 ára. Þá sögðust flestir í yngsta aldurshópnum ekki fylgjast með fréttum og einn af hverjum átta taldi sig eiga í erfiðleikum með að fylgjast með efni frétta.
Tveir af hverjum þremur notuðu samfélagsmiðil deginum áður til að nálgast fréttir
Fréttamiðlar á netinu eru sá miðill sem flestir (86,4%) höfðu notað deginum fyrir könnun til þess að nálgast fréttir. Næstflestir notuðu samfélagsmiðil til að nálgast fréttir, en tveir af hverjum þremur notuðu þá deginum áður í þeim tilgangi. Í yngsta aldurshópnum (15-17 ára) höfðu 92,5% notað samfélagsmiðil á síðastliðnum 30 dögum til að nálgast fréttir. Yngsti aldurshópurinn er jafnframt sá hópur sem notar fréttamiðla á netinu minna en aðrir, þar sem 46,7% höfðu notað miðilinn deginum áður en meðaltalið úr öllum öðrum aldurshópum (18 ára og eldri) var 88,5%.
Þrefalt fleiri velja fréttamiðla á netinu en dagblöð til að nálgast fréttir
Alls sögðust 62,4% hafa notað sjónvarpsstöð síðast deginum áður til að nálgast fréttir, sem eru heldur færri en nefndu samfélagsmiðil þrátt fyrir að sjónvarp hefði oftast verið nefnt sem mikilvægasti fréttamiðillinn. Þá sögðust 26,9% hafa notað dagblað síðast deginum fyrir könnun til að nálgst fréttir. Það eru rúmlega helmingi færri en notuðu samfélagsmiðil (65,6%), sjónvarpsstöð (62,4%) eða útvarpsstöð (59,9%) og aðeins um þriðjungur af þeim fjölda sem valdi fréttamiðil á netinu (86,4%).
Níu af hverjum tíu nota Facebook daglega
Af þátttakendum í könnuninni voru 87,5% sem notuðu Facebook annaðhvort daglega eða oft á dag. Konur voru þá líklegri en karlar til þess að nota miðilinn þar sem 93,4% þeirra notuðu hann annaðhvort daglega eða oft á dag samanborið við 82% karla. Yngsti aldurshópurinn (15-17 ára) notar Facebook minnst samkvæmt rannsókninni þar sem 21,1% nota miðilinn vikulega, 8,3% mánaðarlega og 14,7% sjaldnar eða aldrei. Að jafnaði sögðust 56,3% þátttakenda nota Instagram annaðhvort daglega eða oft á dag. Konur nota þá miðilinn oftar en karlar þar sem 40,9% kvenna sögðust nota Instagram oft á dag en 16,7% karla. Notkunin á Instagram var mun meiri hjá yngri þátttakendum en þeim eldri.
Hlaðvörp vinsælli meðal þeirra sem hafa hærri tekjur og meiri menntun
Hlaðvörp eru vinsælli meðal þeirra sem hafa hærri tekjur og meiri menntun. Í heildina sögðust 47,1% þátttakenda nota hlaðvörp vikulega eða oftar. Vikuleg hlustun er mest hjá þeim sem eru með milljón til 1.199 þúsund kr. í tekjur og dagleg hlustun er mest hjá þeim sem eru með 1.200 þúsund kr. eða hærra á mánuði í tekjur. Níu af hverjum tíu sögðust þá nota streymisveitur með kvikmyndum og sjónvarpsþáttum vikulega eða oftar. Þá var dagleg notkun 51,2% meðal þátttakenda og 11,5% sem sögðust nota þær oft á dag.
Tveir af hverjum þremur báru traust til íslenskra fjölmiðla
Alls voru 76,9% þátttakenda sem sögðust frekar eða alveg sammála fullyrðingunni „ég veit hvaða fjölmiðlum er vel hægt að treysta og hverjum er síður hægt að treysta“. Þar voru hlutfallslega fleiri með búsetu í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum (81,3%) sem voru frekar eða alveg sammála fullyrðingunni en að meðaltali á landsbyggðinni (70,3%). Tveir af hverjum þremur (66,1%) sögðust frekar eða alveg sammála fullyrðingunni „almennt séð ber ég traust til íslenskra fjölmiðla“. Í aldurshópi 15-17 ára voru fæstir sem sögðust frekar eða alveg sammála (54,1%) en um þriðjungur (33,6%) í þeim aldurshópi sagist hvorki sammála né ósammála fullyrðingunni. Munur var á afstöðu þátttakenda eftir heimilistekjum, þar sem traust á íslenskum fjölmiðlum jókst eftir því sem tekjur hækkuðu. Í hópi þeirra sem voru með lægri tekjur en 400 þúsund kr. voru 51,7% frekar eða alveg sammála fullyrðingunni en 78,8% í hópi þeirra sem voru með 1.200 þúsund kr. eða hærri tekjur.