Frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á hjúskaparlögum nr. 31/1993 var nýlega samþykkt á Alþingi. Gerðar voru breytingar á ýmsum ákvæðum hjúskaparlaga svo sem varðandi undanþáguheimild vegna lágmarksaldurs til þess að stofna til hjúskapar, könnun hjónavígsluskilyrða og lögsögu í hjónaskilnaðarmálum, auk þess sem gerðar voru breytingar sem snúa að því að færa tiltekin verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna.
Breytingar sem taka þegar gildi
Aldur hjónaefna
- Afnumin var undanþáguheimild í hjúskaparlögum frá því að einstaklingur yngri en 18 ára megi ganga í hjúskap. Ráðuneytið mun nú ekki lengur hafa lagaheimild til þess að veita yngra fólki en 18 ára leyfi til að ganga í hjúskap.
- Lögfest var sú grunnregla sem talin er eiga við hér á landi um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis ef hjúskapurinn uppfyllir hjónavígsluskilyrði og reglur um stofnun hjúskapar í vígslulandinu. Hjúskapur sem stofnað er til erlendis verður þó ekki viðurkenndur hér á landi ef annað hjóna eða bæði voru yngri en 18 ára þegar vígsla fór fram. Þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess verður þó heimilt að viðurkenna hjúskap hér á landi ef viðkomandi hafði náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn er viðurkenndur í því landi þar sem hjónavígslan fór fram. Hjúskapur, sem að öðru leyti brýtur í bága við grunnreglur íslenskrar réttarskipunar eða allsherjarreglu verður ekki viðurkenndur hér á landi.
- Gert er ráð fyrir að hjón sem óska viðurkenningar og skráningar á hjónavígslu sem hefur farið fram erlendis beini erindi sínu til Þjóðskrár Íslands. Ef vafi leikur á því hvort uppfyllt er skilyrði fyrir skráningu hjónavígslunnar skal Þjóðskrá Íslands beina málinu til sýslumanns sem úrskurðar um skráningu hjónavígslu. Bera má synjun sýslumanns undir ráðuneytið. Þá er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að viðurkenning á hjónavígslu sem farið hefur fram erlendis verði á hendi eins sýslumanns.
Lögsaga í hjónaskilnaðarmálum
- Gerðar voru breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgarar.
- Mál til hjónaskilnaðar má nú höfða hér á landi ef hjónavígslan hefur farið fram hér og leitt er í ljós að stefnandi geti ekki höfðað mál í landinu þar sem hann hefur ríkisfang eða er búsettur.
- Þá geta stjórnvöld nú leyst úr hjónaskilnaðarmálum er tengjast öðrum ríkjum ef hjónavígsla hefur farið fram hér á landi og leitt er í ljós að sá sem óskar hjónaskilnaðar getur ekki óskað eftir hjónaskilnaði í landinu þar sem hann á ríkisfang eða er búsettur.
Færsla verkefna frá ráðuneytinu til sýslumanna
- Gerðar voru breytingar á hjúskaparlögum sem snúa að því að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna sem talin eru samræmast hlutverki sýslumanna betur en ráðuneytisins.
- Synjun á samþykki lögráðamanns fyrir því að ólögráða einstaklingur geti stofnað til hjúskapar verður nú borin undir sýslumann í stað ráðuneytis.
- Þá er það sýslumaður en ekki ráðuneytið sem getur nú veitt undanþágu frá hjónavígsluskilyrði vegna stöðu fjárskipta milli hjónaefnis og fyrri maka.
Breytingar sem taka gildi 1. september 2022
Könnun hjónavígsluskilyrða
- Frá og með 1. september nk. mun könnun hjónavígsluskilyrða einungis fara fram hjá sýslumönnum, hvort sem hjónaefni eiga lögheimili hér á landi eða ekki. Könnun hjónavígsluskilyrða verður nú ekki lengur á hendi presta eða forstöðumanna trú- og lífskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra. Vígsluheimildir presta og forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra verða hins vegar óbreyttar samkvæmt lögunum. Frá og með 1. september nk. þurfa allir sem ætla að ganga í hjúskap hér á landi að óska eftir könnun á hjónavígsluskilyrðum hjá sýslumanni. Heimilt verður að taka gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs.
- Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að könnun hjónavígsluskilyrða verði á hendi eins sýslumanns.
- Einnig voru gerðar breytingar sem miða að því að innleiða vefviðmót fyrir rafrænar umsóknir um könnun hjónavígsluskilyrða. Er annars vegar um að ræða að yfirlýsing hjónaefna um að ekkert tálmi fyrirhuguðum hjúskap geti verið rafræn. Hins vegar að könnunarmanni verði heimilt að afla upplýsinga eða gagna vegna könnunar á hjónavígsluskilyrðum hjá Þjóðskrá Íslands, sýslumönnum og dómstólum með rafrænum hætti. Framangreindum aðilum ber að veita könnunarmanni rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi þeir yfir þeim.
- Þá voru gerðar þær breytingar að sýslumaður í stað ráðuneytisins hefur heimild til þess að veita undanþágu frá því að tveir svaramenn ábyrgist að enginn lagatálmi sé á fyrirhuguðum hjúskap og að einn svaramaður undirriti vottorð.
Markmið breytinga
Markmið breytinganna á hjúskaparlögum er margþætt. Að því er varðar afnám undanþágu frá því að heimila einstaklingum yngri en 18 ára að ganga í hjúskap var tilgangurinn að samræma hjúskaparlögin alþjóðlegum tilmælum og viðhorfum varðandi lágmarksaldur til þess að ganga í hjúskap. Varðandi þær breytingar að fela sýslumönnum alfarið að kanna hjónavígsluskilyrði var markmiðið að samræma framkvæmdina og bæta gæði könnunar á hjónavígsluskilyrðum.
https://gamli.frettatiminn.is/25/05/2018/atjan-born-hafa-fengid-ad-gifta-sig-a-islandi/
Umræða