Gallup birti niðurstöðu þann 4. júlí s.l. um traust almennings á stofnanir samfélagsins, nýjasta mæling varðandi löggjafaþingið er frá því í febrúar og við munum bera saman næstu mælingu þegar að hún berst
Talsverðar breytingar urðu á trausti almennings til margra stofnana samfélagsins í kjölfar bankahrunsins og var Alþingi sú stofnun sem tapaði hvað mestri tiltrú almennings ef frá er talið bankakerfið. Lögreglan er á hinn bóginn ein af fáum stofnunum þar sem traust almennings hefur aukist frá því fyrir hrun.
Traust á löggjafarþinginu hefur þó þokast upp á við en hlutfall þeirra sem treysta þinginu mældist 29% í febrúar 2018 og hefur ekki mælst hærra síðan í febrúar 2008. Bankakerfið, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið eru fleiri dæmi um stofnanir þar sem traust hefur smám saman aukist frá hruni.
Hástökkvarinn er þó forsetaembættið sem hefur nær tvöfaldað traust sitt frá árinu 2015. Enn sem komið er nýtur Landhelgisgæslan þó mests trausts hér á landi, af þeim stofnunum sem mældar eru, en ríflega níu af hverjum tíu bera mikið traust til gæslunnar. Þó miði í rétta átt sýna mælingar Gallup að traust til stofnana er enn almennt minna en fyrir hrun.
Mikilvægi trausts í samskiptum verður varla ofmetið, en mikilvægi þess er oft ekki ljóst fyrr en það bregst með einhverjum hætti. Við tökum áhættu með því að treysta og getum þurft að taka afleiðingunum af því. Í umfjöllun um traust er jafnan greint á milli almenns trausts í samskiptum og svo trausts á stofnunum. Þá er oft litið á stofnanatraust sem mælikvarða á lögmæti stofnunarinnar í augum þegna samfélagsins.
Mynd 1, heimild: Þjóðarpúls Gallup
Hverjir treysta stofnunum og hverjir ekki?
Afstaða fólks til stofnana breytist eftir hagsmunum þess og gildismati. Þannig breytast viðhorf fólks til pólitískra stofnana eftir því hvaða flokkar eru við völd hverju sinni. Þá fer traustið eftir því hvernig fólki finnst stofnunin standa sig og hver eða hverjir eru í aðalhlutverki. Gengi efnahagslífsins hefur einnig áhrif og stofnanatraust eykst að jafnaði með betri efnahagsstöðu svarenda.
Augljóst er af mælingum Gallup að hrunið olli sinnaskiptum þegar kemur að trausti til þingsins. Í könnunum kom fram að fólk hafði ekki mikla trú á að þingið starfaði af heilindum eða væri að vinna að mikilægustu verkefnunum. Þetta olli djúpu vantrausti, einkum hjá þeim hópum sem áður treystu þinginu best.