Seinnipartinn í gær, 19. október, hófst jarðskjálftarhina í Öxarfirði um það bil 28 km vestur af Kópaskeri. Frá því að hrinan hófst hefur jarðskjálftamælanet Veðurstofunnar staðsett um 450 skjálfta. Tveir stærstu skjálftarnir í hrinunni hingað til eru 3,2 að stærð og urðu kl. 11:03 og 19:19 í dag. Stærð flestra skjálftanna hingað til er á bilinu 1,0-2,0. Veðurstofunni hafa ekki borist neinar tilkynningar um að stærstu skjálftarnir hafi fundist í byggð.
Skjálftar síðustu 48 tíma hafa samtals verið 507: Stærð minni en 1 alls: 76. Stærð 1 til 2 alls: 361. Stærð 2 til 3 alls: 68. Stærri en 3 alls: 2, eða samtals: 507 skjálftar
Jarðskjálftahrinan á upptök sín á Tjörnesbrotabeltinu en þar varð síðast öflug hrina í lok mars á þessu ári. Þá fundust stærstu skjálftarnir í nálægum byggðum. Í þeirri hrinu mældust um 2600 skjálftar á um það bil viku, þar sem stærsti skjálftinn var 4,2 að stærð. Skjálftarnir í þeirri hrinu voru nær Kópaskeri, eða í um 6 km fjarlægð.
Vikuyfirlit 7. október – 13. október
Tæplega 210 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands, sem er svipaður fjöldi og í síðustu þegar um 220 skjálftar voru staðsettir. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,1 að stærð og varð við Eystri Skaftárketilinn í vestanverðum Vatnajökli kl. 17:44 sunnudaginn 13. október.
Fjórtán skjálftar voru staðsettir í Heklu í vikunni sem eru heldur fleiri en vanalega. Þrír stærstu skjálftarnir í Heklu voru 1,3-1,5 að stærð, en aðrir minni en 1,0. Meiri hluti þessarra fjórtán skjálfta urðu þriðjudaginn 8. október. Veðurstofunni barst ein tilkynning um að jarðskjálfti af stærð 2,3 sem varð um 10 km VSV af Kópaskeri hefði fundist þar.