Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar sterklega við sölu á grunnneti íslenska símakerfisins úr landi. Innviðir fjarskiptakerfisins eru dæmi um starfsemi sem í eðli sínu ber helstu einkenni náttúrulegrar einokunar þar sem mikill kostnaður við að setja upp slíkt kerfi kemur í veg fyrir samkeppni.
Slík einokun getur verið mjög kostnaðarsöm fyrir almenning, fyrirtæki og opinbera aðila þar sem ákvarðanir um verðhækkanir eru teknar einhliða og neytendur eiga ekki í önnur hús að venda. Áhrifin geta oft margfaldast í tilfelli dreifðari byggða.
Um allan heim leitast fjármagnseigendur við að komast yfir samfélagslega innviði þar sem innkoman er stöðug en einnig mögulegt að draga fjármagn út með einföldum hætti. Þar geta skapast óeðlilegir hvatar til að draga úr fjárfestingum og viðhaldi, selja eignir og skilja eftir lítið annað en skel utan um starfsemina. Slík hætta er raunveruleg og í tilviki Mílu er ljóst að íslenskt samfélag sæti uppi með kostnaðinn, auk þess sem röskun á starfsemi Mílu gæti hamlað eðlilegu gagnverki samfélagsins. Áhættan liggur því hjá íslenska ríkinu og þar með íslenskum almenningi, ekki hjá erlendum fjárfestum. Gróði eigenda Símans getur orðið skammgóður vermir, en þar á meðal eru nokkrir lífeyrissjóðir sem samanlagt fara með meirahlutaeign og bera skyldur gagnvart samfélaginu öllu.
Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja almannahagsmuni í málinu og bæti þannig fyrir fortíðarmistök þegar grunnnet símakerfisins var einkavætt samhliða sölu á Símanum. Hagsmunir sem varða þjóðaröryggi eru aðeins einn hluti af stærra vandamáli. Ekki nægir að vísa til umræðu á vettvangi Þjóðaröryggisráðs sem fram fer fyrir luktum dyrum, enda snertir þetta mál samfélagið allt, uppbyggingu þess og atvinnulíf. Stjórnvöldum ber að standa vörð um grunninnviði landsins og tryggja að þeir séu í samfélagslegri eigu.