Helstu verkefni lögreglunnar í Vestmannaeyjum vikuna 14. til 20. janúar 2019.
Einn fékk að gista fangageymslur lögreglu um helgina en hann var handtekinn við að reyna að komast inn í íbúð sem hann átti ekkert erindi í. Honum var sleppt lausum eftir að víman var runnin af honum. Tvö fíkniefnamál komu upp í liðinni viku. Að kvöldi 16. janúar sl. fannst töluvert magn kanabisefna við húsleit og voru þrír aðilar, tveir karlmenn og ein kona, handteknir í framhaldi af því. Þeim var sleppt að skýrslutökum loknum og er málið talið að mestu upplýst. Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum.
Síðdegis þann 17. janúar sl. var karlmaður handtekinn þegar hann var að taka á móti pakka á flugvellinum í Vestmannaeyjum. Í pakkanum reyndist vera nokkuð magn af kannabisefnum og viðurkenndi maðurinn að hafa átt von á sendingunni. Málið telst að mestu upplýst.
Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í liðinni viku en þarna lenti bifreið, sem ekið var eftir Flötum, á húsvegg þegar að ökumaðurinn reyndi að koma í veg fyrir árekstur, eftir að annarri bifreið var ekið í veg fyrir hann.