Þjófnaður á hlutum af og úr bifreið á Patreksfirði
Lögreglan á Vestfjörðum er með til rannsóknar mál er varðar þjófnað á ýmsum hlutum af og úr bifreið sem stóð við Mikladalsveg á Patreksfirði.
Bifreiðin er fornbifreið og er af gerðinni BMW Alpina B10. Það sem var tekið úr bifreiðinni voru stýri hennar, mælaborð, tölvan fyrir vélina, gírkassinn, rafkerfið fyrir vélina, BMW merki og fram- og aftur höggvarar. Einnig voru teknir varahlutir sem voru í kössum í aftursæti bifreiðarinnar.
Síðast er vitað að bifreiðin var með öllum þessum hlutum á sunnudaginn, 17. janúar s.l. rétt fyrir hádegi. Bifreiðin sást svo án þessara hluta á mánudagsmorgun, 18. janúar s.l.
Ef einhver getur veitt upplýsingar varðandi málið, eða hefur orðið var við grunsamlegar mannaferðir í kringum þetta tímabil, er sá hinn sami beðinn um að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 444-0400, í einkaskilaboðum á facebook eða í gegnum tölvupóst, vestfirdir@logreglan.is