Yfirlýsing LÍS um aðgengi stúdenta að geðheilbrigðisþjónustu
Landssamtök íslenskra stúdenta krefjast þess að geðheilbrigðisþjónusta innan háskólakerfisins verði bætt til muna, úrræðum fjölgað og að minnsta kosti einu stöðugildi sálfræðings verði komið á innan hvers háskóla fyrir sig. Á síðastliðnum árum hefur aukin umræða beinst að mikilvægi geðheilsu og sterkrar geðheilbrigðisþjónustu. Stúdentar hafa ekki látið sitt eftir liggja í umræðunni og krafist þess að geðheilbrigðisúrræðum innan íslenskra háskóla verði fjölgað. Það var meðal annars ein af kröfum stúdenta í alþingiskosningum 2017 að starfandi væri allavega einn sálfræðingur innan hvers háskóla.
Þeirri kröfu var ekki mætt og getur stór hluti stúdenta því enn ekki sótt geðheilbrigðisþjónustu til sinnar háskólastofnunar. Samkvæmt EUROSTUDENT VI eiga um tvöfalt fleiri íslenskir stúdentar við andleg veikindi að stríða en stúdentar á hinum Norðurlöndunum . EUROSTUDENT könnunin er yfirgripsmikil könnun sem er lögð fyrir stúdenta í 28 löndum og nær til fjölda félagslegra þátta. Ísland tók fyrst þátt í EUROSTUDENT VI árið 2017 sem gaf loks dýrmætar upplýsingar um stúdentahópinn sem voru áður ekki aðgengilegar.
Upplýsingar sem þarf að nýta og sníða viðeigandi þjónustu og úrræði út frá. Mikill hagur er í því að háskólar bjóði upp á fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna. Stúdentar eru útsettir fyrir ýmsum áhættuþáttum sem geta ýtt undir þróun geðsjúkdóma. Meginþorri stúdenta hefur einnig háskólanám á aldri þar sem geðsjúkdómar koma oft á tíðum fyrst fram. Forvarnir og snemmtæk íhlutun í nærumhverfi stúdenta skipta því sköpum.
Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa báðir fjölgað sínum geðheilbrigðisúrræðum fyrir tilstuðlan stúdenta og sýnt fram á góðan árangur úrræðanna. Það er ólíðandi að einungis stúdentar í fyrrnefndum skólum hafi aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í gegnum sinn háskóla. Í þokkabót annar þjónustan í Háskóla Íslands ekki einu sinni eftirspurn.
Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld bregðist við þörfinni og veiti háskólum landsins það fjármagn sem þeir þurfa til að halda úti öflugri geðheilbrigðisþjónustu í háskólakerfinu öllu. Þjónustu sem er óháð búsetu, efnahag og öðrum þáttum. Jafnframt er nauðsynlegt að háskólar á landsvísu bjóði stúdentum sínum upp á eins fjölbreytt úrræði og þeim er kostur á.
Háskólar bera ábyrgð á því að líta á geðheilsu nemenda sinna sem forgangsverkefni og verða stöðugt að setja tíma, orku og fjármuni í geðheilbrigðisþjónustu sem nær þvert yfir öll svið skólanna . Tryggjum blómlegt nærumhverfi stúdenta þar sem heilsa og vellíðan stúdenta er í forgrunni. Umhverfi sem gerir stúdentum kleift að vaxa og dafna, ekki bara lifa af.