Frumvarp til laga um breytingu á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 hefur nú verið lagt fram á Alþingi og mun Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mæla fyrir því á yfirstandandi þingi. Frumvarpið er liður í heildstæðum aðgerðum stjórnvalda til stuðnings íslenskri tungu. Markmið frumvarpsins er að efla lýðræðishlutverk fjölmiðla með því að styðja við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.
Til að ná því markmiði er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita einkareknum fjölmiðlum fjárhagslegan stuðning sem felst í því að endurgreiða þeim hluta þess kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni. Með frumvarpinu er leitast við að Ísland skipi sér í hóp hinna Norðurlandanna og fleiri ríkja í Evrópu sem styrkja einkarekna fjölmiðla.
Frumvarpið gerir ráð fyrir tvíþættum stuðningi stjórnvalda við einkarekna fjölmiðla sem ætlað er að stuðla að sanngirni og tæknilegu hlutleysi við dreifingu endurgreiðslunnar. Endurgreiðsluhæfur kostnaður verður samkvæmt frumvarpinu bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf. Hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki 25% af fyrrgreindum launakostnaði, þó ekki hærri en 50 milljónir kr. til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs.
Þá er reglugerðarheimild í frumvarpinu þess efnis að veita megi staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu. Að auki heimilar frumvarpið sérstakan stuðning, sem nemur allt að 5,15% af þeim launum starfsfólks ritstjórna sem falla undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna frumvarpsins verði allt að 520 milljónir kr. frá og með 1. janúar 2020.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu renni út í árslok 2019. Stefnt er að því að fyrir þann tíma verði athugað hvort breyta skuli tekjuuppbyggingu Ríkisútvarpsins, þar á meðal hvort draga skuli úr umsvifum þess á auglýsingamarkaði eða að fjármögnun starfseminnar verði einungis byggð á opinberum fjármunum.
Frumvarpið er gert í umfangsmiklu samráði og byggir það einnig á ítarlegri rannsóknarvinnu sem rekja má til ársins 2017 þegar Illugi Gunnarsson þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nefnd sem ætlað var að fjalla um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Í framhaldinu var fjölmiðlanefnd falið að meta þær aðgerðir sem þar voru lagðar til og skilaði hún greinargerð sinni sl. haust. Frumvarpsdrögin voru síðan kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í vetur og bárust þangað fjölmargar gagnlegar umsagnir.